Ragnheiður Jónsdóttir | október. 13. 2017 | 14:00

Nýju strákarnir á PGA 2018: Lanto Griffin (8/50)

Það voru 25 efstu á peningalista Web.com Tour sem hlutu kortin sín og þar með fullan spilarétt á PGA Tour, keppnistímabilið 2017-2018.

Golf 1 hefir haft þann vana á undanförnum árum að kynna alla þessa 50 nýju og ekki svo nýju, sem hins vegar hljóta spilarétt sinn að nýju á PGA Tour í gegnum 2. deildina, Web.com Tour.

Byrjað verður á því að kynna þá 25 sem efstir voru á peningalista Web.com Tour og hljóta þannig kortið sitt í 1. deild, PGA Tour.

Líkt og venja er hér á Golf 1 verður byrjað að kynna þann, sem rétt slapp inn í gegnum peningalistann og síðan endað á þeim sem var á toppnum. Síðan verður tekið til við að kynna þann sem rétt slapp inn í gegnum Web.com Finals og endað á þeim sem var á toppnum þar.

Sá sem varð í 18. sæti peningalistans með samtals verðlaunafé upp á samtals $224,037 (Verðlaunafé í Web.com Finals: $54,348;; Verðlaunafé á reglul. tímabili:$169,689) var bandaríski kylfingurinn Lanto Griffin.

 Lanto Griffin fæddist í Mount Shasta í Kaliforníu, 15. júní 1988 og er því 29 ára.

Sem smápatti fluttist hann með fjölskyldu sinni til Blacksburg, Virginíu.

Hann spilaði síðan í bandaríska háskólagolfinu með Virginia Commonwealth University, þar sem hann var m.a. valinn  Colonial Athletic Association leikmaður ársins 2009.  Griffin gerðist atvinnumaður í golfi árið 2010.

Griffin spilaði á PGA Tour Latinoamérica árin 2015 og 2016. Þar sigraði hann m.a. Roberto De Vicenzo Punta del Este Open Copa NEC árið 2015. Sama ár vann Griffin líka á heimavelli þ.e.Virginia Open.

Griffin hóf að spila á Web.com Tour árið 2017. Það sem lagði grunninn að veru hans á PGA Tour keppnistímabilið 2017-2018 er sigur hans á Nashville Golf Open, en þar varð hann fyrsti kylfingurinn á Web.com túrnum í 13 ár til þess að sigra í móti eftir að hafa rétt skriðið í gegnum niðurskurð.