Ragnheiður Jónsdóttir | október. 3. 2017 | 18:00

PGA: Matt Harmon missti spilarétt á PGA Tour á sársaukafullan máta

Ef þið vissuð það ekki þá þegar, þá er golf óvæginn leikur.

Eitt nýjasta dæmi þess er frá Web.com Tour Championship, síðasta mótinu, þar sem ræðst hvaða 25 efstu af Web.com Tour Finals fá kortið sitt á PGA Tour og þar með spilarétt á mótaröð þeirra bestu.

Bandaríski kylfingurinn Matt Harmon hóf vikuna rétt fyrir utan takmarkið þ.e. að vera meðal 25 efstu – Hann var í 29. sætinu.

Nokkuð stöðug frammistaða á Web.com Tour Championship á 3 hringjum varð til þess að honum var spáð T-16 árangri þ.e. að hann yrði jafn öðrum í 16. sæti og tækist að næla sér í spilarétt á PGA Tour 2018.

Það leit jafnvel allt vel út fyrstu 16 holurnar á á lokahringnum á Web.com Tour Finals í Atlantic Beach CC, þar sem hann var á þægilegum 2 undir pari.

En það átti eftir að spila síðustu 2 holurnar og þá dundi ógæfan yfir. Harmon missti 1 meters fuglapútt á 17 og óheppnin hélt áfram á lokaholunni, þar sem hann 3-púttaði og féll utan markmiðs síns að vera meðal efstu 25.

Hér í meðfylgjandi myndskeiði má sjá viðbrögð Matt Harmon þegar honum varð ljóst að hann hefði ekki náð PGA Tour korti sínu fyrir 2018 keppnistímabilið. Stuttu síðar braut hann pútter sinn í tvennt.