Ragnheiður Jónsdóttir | september. 14. 2017 | 08:00

LPGA: Keppni frestað um óákveðinn tíma á Evían risamótinu vegna veðurs

Ólafía Þórunn „okkar“ Kristinsdóttir hefur leik á Evian meistaramótinu í dag en það er jafnframt fimmta og síðasta risamót ársins hjá atvinnukonum í golfi. Mótið fer fram á Evian Resort í Évian-les-Bains. Keppni var frestað í morgun vegna veðurs, en mikill vindur og úrkoma er á keppnissvæðinu.

Ólafía er ráshóp með góðri vinkonu sinni, Angel Yin frá Bandaríkjunum fyrstu tvo keppnisdagana. Kim Kaufman frá Bandaríkjunum er einnig með þeim í ráshóp. Þær áttu að hefja leik kl. 11:09 að íslenskum tíma í dag en það verður einhver töf á því.

Mótið er þriðja risamótið á þessu ári þar sem Ólafía Þórunn er á meðal keppenda. Hún lék á KPMG mótinu í júní og á Opna breska meistaramótinu í júlí. Hún náði ekki að komast í gegnum niðurskurðinn á þeim mótum.

Evian meistaramótið fór fyrst fram árið 1994 og er verðlaunaféð á mótinu það næst hæsta á eftir Opna bandaríska meistarmótinu. Heildarverðlaunféð á Evian er tæplega 400 milljónir kr. Á Opna bandaríska, þar sem Valdís Þóra Jónsdóttir var á meðal keppenda, var verðlaunaféð tæplega 550 milljónir kr. Evian meistaramótið hefur frá árinu 2013 verið sameiginlegt risamót á vegum LPGA og LET Evrópumótaraðarinnar.

Keppnisvöllurinn er í um 500 metra hæð yfir sjávarmáli og er gríðarlegt útsýni yfir Genfarvatn í norðurátt.

Texti: GSÍ