Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 20. 2017 | 10:00

Tiger sækir sér hjálpar vegna lyfjaofneyzlu

Þremur vikum eftir að Tiger Woods var handtekinn vegna aksturs undir áhrifum sagðist hann í gær, mánudaginn 19. júní 2017, að hann væri að sækja sér hjálpar vegna lyfjaofneyzlu, bakverkja og krónísks svefnleysis.

Þannig sagði Tiger í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér: „Ég er sem stendur undir handleiðslu sérfræðinga til að ná tökum á lyfjaneyslu minni og því hvernig ég höndla bakverki og svefntruflanir.

Ég vil þakka öllum fyrir ótrúlegan stuðning og skilning sérstaklega áhangendum og leikmönnum á túrnum.“

Tiger, 41 árs, hefir aðeins spilað tvívegis á þessu ári – hann náði ekki niðurskurði í einu mótinu og dró sig úr hinu.

Hann gekkst undir 4. bakuppskurð sinn í apríl sl. og var handtekinn fyrir 3 vikum ekki langt frá heimili sínu í Jupiter, Flórída, þar sem lögreglumenn fundu hann sofandi undir stýri ekki langt frá heimili sínu með sprungið á 2 dekkjum.

Öndunarsýni sýndu að Tiger var ekki með áfengismagn í blóði, en greindist með lyfjakokkteil, sem hann notar til að lina verki vegna bakmeiðsla og svefnleysis.

Mót sem Tiger hefir styrkt undanfarin ár á PGA, The Quicken Loans National hefst 29. júní n.k. á  TPC Potomac at Avenel Farm, en sá völlur er austur af Bethesda’s Congressional Country Club, þar sem mótið hefir farið fram 10 sinnum.

Tiger hefir sigrað í mótinu tvívegis – 2009 0g 2012 – en hann hefir líka oft ekki tekið þátt vegna meiðsla, allt frá 2008.  En þegar hann hefir ekki spilað hefir hann oft tekið þátt í t.a.m. opnunarhátíðinni þar sem m.a. hermenn eru heiðraðir á 1. teig, eða hann hefir afhent verðlaunabikarinn.

Hvort hann tekur þátt í einhverju formi í mótinu í ár er alls óvíst, en fréttatilkynningin veitir engar upplýsingar þar um.