Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 11. 2017 | 18:00

Daginn eftir að auglýsingasamingur er gerður v/Rory selur Adidas TaylorMade Golf

Daginn eftir að TaylorMade gerir stærsta auglýsingasamning sinn til þessa við kylfing, þ.e. nr. 2 á heimslistanum Rory McIlroy, var tilkynnt um að Adidas AG hefði selt TaylorMade til KPS Capital Partners fyrir $425 milljónir.

Talið er að samningurinn við Rory sé upp á $100 milljónir.

Inni í því sem Adidas selur KPS, nú deginum eftir að samningurinn er gerður við Rory, eru TaylorMade, Adams og Ashworth vörumerkin.

Í janúar s.l. gerði TaylorMade auglýsingasamning við Tiger Woods og er jafnframt með samninga við nr. 1 á heimslistanum Dustin Johnson, Jason Day og Sergio Garcia.

Það er því hægt að segja að TaylorMade sé með öll stærstu nöfnin í golfinu í dag á sínum snærum.

KPS, sem er með höfuðstöðvar í New York er geysiöflugt og sér um fjárfestingar upp á  $5.7 milljarða fyrir fjölmörg fyrirtæki.

U.þ.b. helmingur  af $425 milljónunum mun verða greiddur í reiðufé en afgangurinn m.a. í hlutabréfum og öðru gegngjaldi. Sagt er að kaupunum muni verða lokið síðar á þessu ári að uppfylltum lokaskilyrðum og samþykki aðila.