Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 3. 2017 | 11:00

DJ snýr aftur til keppni nú um helgina!

Nr. 1 á heimslistanum, Dustin Johnson (DJ) snýr aftur til keppni á mót vikunnar á PGA Tour, sem er Wells Fargo Championship og hefst það á morgun.

DJ telur sig nú hafa náð bata af bakmeiðslum, sem hann hlaut þegar hann datt niður stiga í leiguhýsi sínu við Augusta, daginn áður en 1. risamót ársins, The Masters hófst og varð hann sem kunnugt er af því.

Fram að Masters var DJ eldheitur, búinn að sigra á tveimur heimsmótum þ.e.  WGC Mexico Championship og WGC Dell Match Play, m.ö.o. heimsmótinu í holukeppni.

Allra augu voru á DJ fyrir Masters og hann talinn sigurstranglegastur til að sigra í 2. risamóti sínu.

Talið er að DJ sé að prófa í hvernig ástandi hann er fyrir hið óopinbera 5. risamót ársins, The Players Championship, sem fer fram vikuna á eftir.

Spurning hvort DJ sé fullkomlega búinn að ná sér?