Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 8. 2017 | 15:00

Masters 2017: Er löng bið Garcia á enda?

Sergio Garcia, 37 ára, frá Spáni er að spila í 74. risamóti sínu án þess að hafa tekist að sigra í nokkru þeirra.

En lukkan kann að vera að brosa við honum nú á Masters í ár haldi hann áfram að spila eins og hann gerði á 2. hring,  sem hann lauk á 3 undir pari, 69 glæsihöggum. Staðan er nú sú í hálfleik að hann er efstur ásamt 3 öðrum: Fowler, Hoffman og Pieters.

Hann hóf hringinn með fuglum á fyrstu þremur holum  Augusta National Golf Club.

Er það virkilega að fara að gerast, nú eftir allan þennan tíma að Sergio Garcia sigri í fyrsta risamóti sínu?

Líkt og Danny Willett í fyrra og Jack Nicklaus 1986 þegar hann vann Masters þá, er kaddý Garcia með töluna 89 á kaddýsvuntunni – kylfingar eru hjátrúafullir – kannski það sé komið að Garcia núna?

Annað sem virkar sem hvatning á Sergio er eflaust að ef honum loksins tekst að sigra í fyrsta risamóti sínu þá myndi hann klæðast græna jakkanum á sama degi og Seve Ballesteros hefði orðið 60 ára!

Garcia hefir fram að þessu tekist að hitta brautir í 85% tilvika og vera á réttum höggafjölda á flötum í 70% tilvika. Eina holan sem hann virðist eiga í erfiðleikum með er sú 10.

Garcia hefir verið að slá vel og púttin hans sem alltaf hafa verið svolítið ófyrirsjáanleg hafa verið stöðug og góð.

Eftir að hafa 22 sinnum verið meðal efstu 10 í risamótum og 4 sinnum í 2. sæti kannski er bara loksins komið að Sergio?

Ég var að slá vel frá byrjun og fékk fugla á fyrstu 3 holurnar,“ sagði Garcia að loknum 2. hring. „Og ég setti niður nokkur góð pútt líka. Mér fannst ég spila vel og hitta betur en í gær. Ég gerði nokkur mistök, en það gerist bara á velli sem þessum. Mér hefir tekist að halda mér jákvæðum samt.“

Árið i ár, 2017,  virðist vera ár Sergio og hann er greinilega á betri stað en oft áður. Kannski vegna þess að hann er í mjög hamingjuríku sambandi við fyrrum starfmann Golf Channel, Angelu Atkins – en þau hyggjast giftast síðar á árinu.

Það að ég sé að fara að kvænast hjálpar svo sannarlega,“ sagði Garcia. „Þegar hlutirnir ganga vel og maður er hamingjusamur utan vallar er svo auðvelt að einbeita sér á vellinum. „

Hvað verður, kemur í ljós annað kvöld, sunnudagskvöldið.