Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 8. 2017 | 11:30

Masters 2017: Bubba biður golffréttamann afsökunar

Tvöfaldi Masters sigurvegarinn, Bubba Watson, komst ekki í gegnum niðurskurð í ár s.s. flestir golfáhangendur vita.

Hann lék fyrstu tvo hringina á samtals 8 yfir pari, 152 höggum (74 78), en til að ná níðurskurði á Masters í ár þurfti að vera á samtals 6 yfir pari.

Golffréttaritarar með einhverja reynslu vita að það getur verið tvíbent að tala við kylfinga sem átt hafa vonbrigðahringi; þeir eru venjulegast í vondu skapi, með klýjuna upp í háls að brytja sjálfa sig niður, að gera út af við sig í naflaskoðun helvítis.   Bubba Watson er auk þess þekktur fyrir að vera afar tilfinningasamur.

Eftir vonbrigðahring sinn í gær sagði Bubba við Gene Sapakoff golffréttaritara Charleston Post and Courier, þegar sá spurði hann út í hringinn lélega: „Golf er erfitt; ég veit ekki hvort þú hefir nokkru sinni spilað. Að skrifa golfgreinar er auðvelt.“

Auðvelt að skrifa golfgreinar? Það hefir nú ýmsum stjörnukylfingnum fatast flugið á þeim vettvangnum. En hvernig sem á allt er litið þá á ekki að kenna árinni um þegar illa er róið eða beina athyglinni eitthvað annað eins og Bubba virðist hafa verið að gera.

Rétt er að tala um hvað fór úrskeiðis – laga það….. og koma sterkari til leiks næst.

Bubba baðst síðan afsökunar á Twitter, á því sem hann sagði að hefði verið misheppnuð tilraun til að segja brandara.

Á Twitter síðu Bubba stóð m.a.: „Ég biðst afsökunar á misheppnaðri tilraun minni til að segja brandara í dag … brandarar mínir eru jafnlélegir og golfið mitt þessa vikuna!