Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 8. 2017 | 07:00

Masters 2017: Gæti nýliði sigrað á Masters?

Það eru 4 kylfingar sem leiða eftir 2 keppnisdaga á Masters risamótinu og þ.á.m. er einn nýliði þ.e. kylfingur sem aldrei hefir keppt á Masters áður, en það er stjarna síðasta Ryder bikars, belgíski kylfingurinn Thomas Pieters.

Hann er að spila á móti sér mun reyndari mönnum, sem árum saman hafa reynt að hreppa sigurinn á þessu fyrsta risamóti ársins og nokkrum hefir m.a.s. tekist það og sumum oftar en einu sinni.

En þarna er Pieters í fyrsta skipti að spila níðþungan völlinn sem Augusta National er á móti sér reyndari mönnum og í risamóti sem alltaf hlýtur að vera aukaálag.

Spurningin er: Getur nýliði sigrað á Masters?

Rökin með því eru auðvitað að nýliðarnir hafa engu að tapa, ekki er búist við neinu af þeim og þeir ættu því að vera óhræddir. Svo vekur risamót sem Masters er auðvitað athygli á þeim, varpar þeim í kastljósið ef vel gengur og ef þeim tekst það ólíklega að sigra … þá er það sögulegt!

Í háflleik 2017 eru 15 kylfingar sem eru innan við 5 högg frá fjórmenningunum á toppnum – og 7 þeirra eru meðal efstu 15 á heimslistanum.

Meðal þessara 15 er enn einn nýliðinn, sem búist er við miklu af en það er spænski kylfingurinn Jon Rahm.

Hann  er T-6, 3 höggum á eftir Pieters.

Ef annaðhvort Pieters eða Rahm sigra á Masters 2017 þá er það í fyrsta sinn frá árinu 1979 að kylfingi sem er að spila í sínu fyrsta Masters móti tekst að sigra.

Reyndar hefir aðeins 3 kylfingum tekist að sigra í fyrstu tilraun sinni á Masters en það var í fyrstu tvö skiptin sem Masters fór fram (Horton Smith 1934 og Gene Sarazen 1935) og síðan sigraði Fuzzy Zoeller í 1. tilraun sinni 1979.

Það yrði því sögulegt ef annaðhvort Pieters eða Rahm stæðu uppi sem sigurvegarar!