Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 29. 2017 | 10:00

Brandel Chamblee kæmi ekki á óvart ef Tiger tæki þátt í Masters

Einn þekktasti golfgreinandi Bandaríkjanna, Brandel Chamblee telur vel geta skeð að Tiger Woods muni spila í Masters risamótinu næstu viku.

Þetta kom fram í gær, þriðjudaginn 28. mars á símaráðstefnu þ.e. NBC/Golf Channel teleconference, en þar var  Chamblee spurður hvort hann teldi að Tiger tæki þátt í Masters.

Ég trúi því. Ég trúi því. Ef hægt er að trúa öllu sem maður les á félagsmiðlunum. Ég veit að þjálfari hans hefir verið þarna (á Augusta) og þeir hafa verið að slá fullt af boltum niðrí Palm Beach,“ sagði Chamblee. „Þannig að eins og ég skil það hefir hann verið að æfa samviskusamlega. Þannig að það myndi ekki koma mér á óvart ef Tiger birtist á Augusta National.“

Nú, Masters risamótið hefst eftir 8 daga þannig að ekki þarf lengi að bíða svars við  því hvort Tiger taki þátt.

 

Tiger hefir ekkert spilað í mótum opinberlega frá því að hann dró sig úr Dubai Desert Classic áður en lokið var við 2. hring mótsins, þann 3. febrúar s.l. Hann var frá keppni allt 2015-2016 keppnistímabilið á PGA Tour vegna tveggja bakaðgerða eins og allir vita.

Fyrr í þessum mánuði taldi Golf World fréttamiðillinn að líkurnar á að Tiger léki í fyrsta risamóti ársins væru hverfandi. En umboðsmaður Tiger, Mark Steinberg, bar þennan fréttaflutning tilbaka og sagði ekki útilokað að Tiger myndi spila í mótinu.

Tiger sjálfur kom fram í morgunþætti í bandaríska sjónvarpinu Good Morning America, og sagðist vona að hann myndi keppa og sagðist vera „að reyna allt“ til þess að það mætti gerast.

Westgate Las Vegas Superbook telur líkur Tiger á að sigra í Masters 100/1 – líkurnar á að hann (Tiger) spili í mótinu ættu þó að vera eitthvað hærri.