Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 15. 2017 | 16:45

LPGA: Ólafía Þórunn í stjörnuráshóp í Phoenix

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir verður í sannkölluðum „stjörnuráshóp“ fyrstu tvo keppnisdagana á Bank of Hope Founders meistaramótinu sem hefst á fimmtudaginn á LPGA mótaröðinni. Þar mun atvinnukylfingurinn úr GR leika með Cheyenne Woods og Michelle Wie en þær eru báðar frá Bandaríkjunum.

Ólafía hefur leik kl. 14:33 að íslenskum tíma og hefja þær leik á 10. teig á fimmtudaginn.

Mótið fer fram í Phoenix og er gríðarlega sterkt en níu af tíu efstu kylfingum heimslistans.

Hér má sjá rástímana á fyrstu tveimur keppnisdögunum:

Woods er skólafélagi Ólafíu frá Wake Forest háskólaliðinu í Bandaríkjunum og eru þær góðar vinkonur. Þær léku saman fyrstu tvo keppnisdagana á Pure Silk mótinu á Bahamas sem var fyrsta mót ársins á LPGA mótaröðinni. Ólafía dvelur heima hjá Woods sem er búsett í Phoenix. Þær hafa leikið nokkra æfingahringi saman á vellinum sem er að sögn Ólafíu glæsilegur í alla staði. Flatirnar eru harðar og boltinn stoppar ekki svo auðveldlega á flötunum þegar vippað er inn á þær.

Michelle Wie er ein þekktast golfkona allra tíma. Hún er 27 ára gömul og sigraði á sínu fyrsta risamóti árið 2014 á Opna bandaríska meistaramótinu. Wie er einna þekktust fyrir að hafa leikið á PGA mótaröðinni í karlaflokki árið 2004 en þá var hún aðeins 16 ára gömul. Hún náði að komast í 6. sæti á heimslistanum árið 2014 en hún hefur hrapað niður í 173. sæti frá þeim tíma. Mótið hjá Wie í Phoenix verður 240. mót hennar á LPGA mótaröðinni en það þriðja hjá Ólafíu.

Aðstoðarmaður Ólafíu á þessu móti verður þaulreyndur kylfuberi sem heitir Zac en hann er frá Hawaii. Hann hefur verið aðstoðarmaður hjá reyndum kylfingum á borð við Caroline Masson frá Þýskalandi og systranna frá Taílandi, Ariya Jutanugarn og Moriya Jutanugarn.

Sei Young Kim frá Suður-Kóreu hefur titil að verja á Sigur Kim í fyrra var fjórði sigur hennar á sterkustu atvinnumótaröð heims. Kim setti mótsmet í fyrra þegar hún lék lokahringinn á 10 höggum undir pari eða 62 höggum og samtals var hún 5 höggum betri en Lydia Ko frá Nýja-Sjálandi.

Ólafía lék á Pure Silk mótinu á Bahamas í lok janúar og þar endaði hún í 69. sæti á sínu fyrsta mót og komst í gegnum niðurskurðinn.

Á ISPS-Handa mótinu í Ástralíu endaði Ólafía í 30. sæti og var m.a. tveimur höggum betri en Lydia Ko á því móti.

Það er óhætt að segja að Kim hafi sett ný viðmið á mótinu í fyrra. Hún jafnaði LPGA met í hlutfalli við par vallar með því að leika á -27. Þar með jafnaði hún met sem hin sænska Annika Sörenstam átti frá árinu 2001.

Heildarverðlaunafé: 165 milljónir kr.

Keppnisfyrirkomulag: 72 holur – fjórir keppnisdagar og niðurskurður eftir 36 holur.

Heildarlengd keppnisvallar: 6,100 metrar.

Mótið fer fram á Wildfire Golf Club/ JW Marriott Phoenix Desert Ridge Resort & Spa í Phoenix Arizona.

Texti: GSÍ