Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 24. 2017 | 10:45

111 golfvöllum lokað í Kína

Kínversk stjórnvöld hafa enn á ný ráðist á golfíþróttina með því að loka 111 golfvöllum í viðleitni sinni að varðveita vatn og land, en hvorugtveggja þarf mikið af við rekstur golfvalla.

Jafnframt hafa stjórnvöld lagt fyrir félaga í Kommúnistaflokki landsins að vera ekki að spila golf.

Í frétt frá hinni ríkisreknu Xinhua fréttastofu sagði að golfvöllunum hefði verið lokað fyrir að nota of mikið af grunnvatni, ræktanlegu landi eða vernduðu landi innan þjóðgarða.

Jafnframt sagði í fréttatilkynningunni að skorður hefðu verið lagðar á aðra 65 velli.

Kínversk stjórnvöld bönnuðu byggingu nýrra golfvalla árið 2004 þegar í öllu landinu voru færri en 200 golfvellir. Frá þeim tíma hefir fjöldi golfvalla í Kína þrefaldast.

Golfvellirnir í Kína voru á þessu tímabili oft byggðir undir því yfirskyni að um aðrar framkvæmdir hefði verið að ræða t.a.m. að verið væri að byggja skrúðgarða og þá fékkst oft þegjandi samþykki staðbundinna stjórnvalda. Eitt dæmi sem nefnt var í fréttatilkynningunni um „ólöglegan golfvöll“ var að heilt golfvallarsvæði með 58 villum hefði verið byggt undir því yfirskyni að vera „íþróttasvæði fyrir almenning.“

Í mörgum bæjum í Kína er mikið hallæri á landi og fasteignaverð, himinhátt.

Golf hefir komið undir smásjánna, sem hluti af herferð kínverska forsetans Xi Jinping gegn siðspillingu.

Kommúnistaflokkurinn varaði  88 milljón félaga sína við því árið 2015 að spila golf og líkti íþróttinni við „ofát og ofdrykkju“ sem er skilgreint sem slæmar venjur, sem færu gegn meginreglum flokksins. Í China Daily kom m.a. fram að félagar Kommúnistaflokksins mættu m.a. ekki þiggja fría félagsaðild í golfklúbbi eða fría golfhringi.

Kína hefir annars á undanförnum árum sveiflast milli þess að hafna og styðja golfíþróttina. Í ströngum árasaranda á yfirstétt Kína þá bannaði  Mao Zedong golf eftir að hann stofnaði  Alþýðulýveldið Kína, árið 1949.

Einum golfvellinum í Shanghai var þá m.a. breytt í dýragarð.

Golf óx ásmegin kringum 1980 undir stjórn Deng Xiaoping, sem stóð fyrir allskyns efnahagsumbótum, sem m.a. fólust í fjárfestingum erlendis. Um 1990 var m.a. opnaði golfstaðurinn Mission Hills hannaður af Jack Nicklaus í Shenzhen í S-Kína. Í Mission Hills eru nú 12 golfvellir og er það stærsti golfstaður í heimi.

Líkt og í fótbolta og körfubolta þá hefir kínverska stjórnin sett pening í innlendar þ.e. kínverskar golfstjörnur m.a. með því að heimila golfþjálfurum að koma til landsins og með því að stuðla að útbreiðslu golfíþróttinnar. Ástralski kylfingurinn Greg Norman var um tíma ráðgjafi kínverska golflandliðsins. Og það eru svo margir sem 10.000 kínverskir ungkylfingar í Kína og meira en 300 alþjóðleg golfmót í Kína árlega var haft eftir Wang Liwei, aðalritara kínverska golfsambandsins.

Skv. Xinhua, hafa öll 33 héruð og sveitir Kína golfvöll nema Tíbet. Jafnvel í hinu fjöllótta og fjarlæga Xinjiang, þar sem minnihlutahópurinn Uighur býr eru 3 golfvellir, einn í höfuðborginni, Urumqi og síðan einnig í 2 öðrum borgum.

Bandaríkjamaður einn, Josh Summers,  sem hefir búið í  Xinjiang,  í 10 ár og er með vefsíðuna Far West China, segist aldrei hafa hitt neinn þar sem hefði leikið golfhring í héraðinu.  Hins vegar væri litið á golfvöllinn sem eitthvað flott og því væru vellirnir þar enn, sem og golfæfingasvæðin.