Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 11. 2017 | 09:00

Hver er kylfingurinn: Justin Thomas?

Bandaríski kylfingurinn Justin Thomas sigraði nú um helgina á fyrsta PGA Tour móti ársins 2017, SBS Tournament of Champions á Hawaii. Thomas er þá á unga aldri þegar búinn að sigra á tveimur PGA Tour mótum, en hann vann fyrsta PGA Tour mótið sitt sunnudaginn 1. nóvember 2015.

Thomas hefir ekki mikið verið í golffréttum en hér er um ungan og feykiefnilega kylfing að ræða.

Hver er kylfingurinn: Justin Thomas?
Justin Thomas, varð í 5. sæti á Web.com Tour Finals í september 2014 og var ungur (21 árs) kominn með fullan keppnisrétt á PGA Tour; í fyrsta skipti keppnistímabilið 2014-2015. Það er því aðeins á 2. keppnistímabili sínu sem Thomas sigrar á PGA Tour móti, sem er stórglæsilegt í þeirri miklu samkeppni sem er á þessari bestu mótaröð heims!
Litið er á Thomas sem mikils framtíðarmanns í bandarísku golfi – enda miklir golfhæfileikar á ferð þar sem Thomas er.
Justin Thomas fæddist í Louisville, Kentucky, 29. apríl 1993 og er því aðeins 22 árs og sá yngsti sem hlotið hefir kortið sitt á PGA Tour.
Thomas lék í bandaríska háskólagolfinu með golfliði the University of Alabama, þar sem hann vann einstaklingskeppnina 6 sinnum. Hann spilaði líka í NCAA Division I Championship liðinu árið 2013. Thomas vann m.a. Haskins Award árið 2012 sem besti kylfingurinn í háskólagolfinu.
Sem áhugamaður lék Thomas í Wyndham Championship á PGA Tour og varð 3. yngsti kylfingurinn til þess að komast í gegnum niðurskurð á PGA Tour móti aðeins 16 ára, 3 mánaða og 24 daga.
Thomas gerðist atvinnumaður í golfi 2013, aðeins 20 ára og komst strax á Web.com Tour gegnum úrtökumót.
Hann vann fyrsta mótið sem hann lék í sem atvinnumaður þ.e. Nationwide Children’s Hospital Championship, 2014.
Thomas hefir þrátt fyrir ungan aldur spilað í mörgum PGA Tour mótum, en besti árangurinn fyrir fyrra sigurinn 2015 var T-10 árangur í Farmers Insurance Open árið 2014.
Það verður spennandi að fylgjast með Justin Thomas nú í ár!