Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 14. 2016 | 15:40

Saga og Ingvar Andri hlutu styrki úr Styrktarsjóði Íslandsbanka og ÍSÍ

Sjóðsstjórn, skipuð þeim Helgu H. Magnúsdóttur, Elsu Nielsen og Kristínu Rós Hákonardóttur fór yfir umsóknir vegna úthlutunar úr Styrktarsjóði Íslandsbanka og ÍSÍ fyrir árið 2016. Umsóknir um styrk voru að þessu sinni 81 talsins og var styrkjum úr sjóðnum úthlutað í gær, 13. desember 2016.

Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti tillögu sjóðsstjórnar vegna úthlutunar ársins 2016. Úthlutunin nemur í heild sinni 2,5 milljónum króna. Styrkurinn skiptist á eftirtaldan hátt milli kylfinganna Sögu, Ingvars Andra og síðan annarra íþróttamanna:

Saga Traustadóttir kylfingur, 250.000. Saga hefur náð góðum árangri á síðastliðnum tímabilum og lækkað forgjöf sína hratt. Á síðasta keppnistímabili sigraði Saga á einu af mótum Eimskipsmótaraðar fullorðinna. Síðustu tvö tímabil hefur hún sigrað Íslandsbankamótaröðina í sínum aldursflokki. Framundan eru ferðir á mót í Bandaríkjunum til að ná sér í verðmæta reynslu.

Ingvar Andri Magnússon kylfingur, 250.000. Ingvar Andri er einn af efnilegustu kylfingum landsins. Hefur hann síðastliðin fjögur ár fagnað stigameistaratitli á Íslandsbankamótaröðinni. Styrkurinn er veittur til að komast á fleiri mót erlendis sem gefa ómetanlega reynslu til lengri tíma litið.