Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 6. 2016 | 07:00

Thomas Björn verður fyrirliði Evrópu í Rydernum 2018

Mörg stór nöfn í evrópsku golfi hafa gegnt fyrirliðastöðu fyrir lið Evrópu í Rydernum.

Nægir þar að nefna nöfn á borð við  Seve Ballesteros, Bernhard Langer, Jose Maria Olazabal og Collin Montgomerie

Og nú bætist eitt stórnafnið við: Thomas Björn, frá Danmörku, sem mun verða fyrirliði Ryder liðs Evrópu 2018, þegar liðið mætir liði Bandaríkjanna á Paris National golfvellinum í Frakklandi.

Helsti mótherji Björn um stöðuna var Paul Lawrie.

Björn, 45 ára, þykir einstaklega hæfur í hlutverkið en hann hefir lengi gengt stöðu formanns mótanefndar Evróputúrsins auk þess sem hann hefir þrívegis verið í Ryder bikars liði Evrópu og í fjögur skipti verið aðstoðarfyrirliði.  Það er einfaldlega enginn með meiri reynslu.

Á 23 ára ferli sínum sem atvinnumanns (frá árinu 1993) hefir Björn sigrað í 21 atvinnumannsmóti, þar af 15 á Evróputúrnum.

Síðast sigraði Björn í desember 2013 á Nedbank Challenge í Suður-Afríku.

Nú er Björn í aðalhlutverki, í essinu sínu að undirbúa hefnd fyrir ófarirnar í Hazeltine; að leggja grunninn fyrir að endurheimta Ryder bikarinn!