Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 13. 2017 | 18:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2017: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (53/54)

Þann 30. nóvember – 4. desember fór fram 3. stigs mót LPGA,  lokaúrtökumót um hverjar 20 myndu hljóta fullan keppnisrétt á LPGA keppnistímabilið 2016-2017 og hvaða keppendur hlytu takmarkaðan keppnisrétt þ.e. þær sem voru í sætum 21-45 og þær sem jafnar voru í 45. sætinu eða T-45.

155 þátttakendur voru að þessu sinni.

Sú sem varð í 2. sæti og hlaut fullan keppnisrétt á LPGA í fyrstu tilraun sinni, sem hún tekur þátt í lokaúrtökumóti LPGA, er Ólafía „okkar“ Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR og var hún kynnt fyrst af öllum – Þar sem aðeins á eftir að kynna þá sem varð í 1. sætinu Jaye Marie Green verður þessi kynning á Ólafíu sem fyrst var birt 6. desember 2016 kl. 18 birt að nýju í dag og lokið við að kynna allar nýju stúlkurnar á LPGA 2017 á morgun, Valentínusardag 14. febrúar 2017.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR. Mynd: Í einkaeigu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR. Mynd: Í einkaeigu

Hún er fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur fullan keppnisrétt á LPGA mótaröðinni og þjóðin öll af rifna af stolti yfir að eiga kvenkylfing í heimsklassa!

Hér er e.t.v. vert að minnast á Bubo Design fyrirtæki Ólafíu Þórunnar, en kaupa má ýmsan skemmtilegan varning, m.a. „Drauma“ – þ.e. mynd hennar Dream þar sem á eru á allskonar hvatningarorð, sem nauðsynleg eru til að ná árangri og hafa greinilega virkað vel fyrir Ólafíu! T.a.m. er á einni myndinni: „Lifið í núinu“ – sem var nákvæmlega það rétta að gera – eða dýrmætar staðhæfingar eins og: „Diamonds are formed under pressure“. Tilvalin jólagjöf því dýrt er að taka þátt í mótum LPGA og e.t.v. ekki fyrr en á næsta ári sem Ólafía fær að taka þátt í LPGA móti! Sjá má flotta heimasíðu Bubo Design með því að SMELLA HÉR:  og heimasíðu Bubo Design á Facebook með því að SMELLA HÉR: 

Ólafía Þórunn er fædd 15. október 1992, er 24 ára og á sama afmælisdag og íslenski afrekskylfingurinn Eygló Myrra Óskarsdóttir, GO og m.a LPGA kylfingurinn sænski María Hjorth.

Hún er dóttir hjónanna Kristins Gíslasonar og Elísabetar Erlendsdóttur og á tvo bræður Kristinn Jósep, sem var kylfusveinn hennar á lokaúrtökumótinu og Alfreð Brynjar og tvær systur, sem ekki spila golf.

Ólafía Þórunn (t.h.) og Alfreð Brynjar, bróðir hennar, (t.v.) á 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar 28. maí 2011, á Skaganum

Ólafía Þórunn (t.h.) og Alfreð Brynjar, bróðir hennar, (t.v.) á 1. móti Eimskipsmótaraðarinnar 28. maí 2011, á Skaganum

Ólafía byrjaði í golfi aðeins 10 ára, árið 2002 og tók þátt í fyrsta mótinu sínu 12 ára, árið 2004.

Afrek Ólafíu Þórunnar á golfsviðinu eru margvísleg og verða vart tæmandi talin. Meðal helstu hápunkta verður þó að nefna eftirfarandi.

Árið 2007 varð Ólafía efst í Faldo Series Icelandic Championship og varð meistari í sveitakeppnum með GR í unglingaflokki 2008 og 2009. Hér heima spilaði Ólafía Þórunn  á Íslandsmeistaramótum unglinga, varð m.a. Íslandsmeistari í höggleik 2007 og 2008 og Íslandsmeistari í holukeppni 2008. Árið 2009 var hún valin efnilegasti kvenkylfingur Íslands.

Hér heima á Íslandi tók Ólafía Þórunn þátt í ýmsum opnum mótum og 17 ára var hún m.a. á besta skorinu á Opna Galvin Green mótinu í Grafarholti, 72 höggum, kvenfrelsisdaginn 19. júní 2011! Golf 1 tók neðanbirta mynd af Ólafíu við það tækifæri:

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á besta skorinu á Opna Galvin Green mótinu, kvenfrelsisdaginn 19. júní 2011. Mynd: Golf 1

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á besta skorinu á Opna Galvin Green mótinu, kvenfrelsisdaginn 19. júní 2011. Mynd: Golf 1

Seinna um sumarið varð Ólafía þrefaldur Íslandsmeistari þ.e. í höggleik og holukeppni, var í liði GR sem varð Íslandsmeistari í sveitakeppni kvenna og varð klúbbmeistari kvenna í GR.

Ólafía Þórunn, GR ásamt Axel Bóassyni, GK - Íslandsmeistarar í höggleik 2011. Mynd: gsimyndir.net

Ólafía Þórunn, GR ásamt Axel Bóassyni, GK – Íslandsmeistarar í höggleik 2011. Mynd: gsimyndir.net

 Andri Þór Björnsson ásamt Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur, en þau eru klúbbmeistarar GR 2011. Mynd: grgolf.is

Ólafíu Þórunni Kristinsdóttir ásamt Andra Þór Björnssyni, en þau urðu klúbbmeistarar GR 2011. Mynd: grgolf.is

Um haustið 2011 hóf Ólafía Þórunn nám við Wake Forest háskólann í Bandaríkjunum; skóla þar sem PGA snillingar á borð við Arnold Palmer, Webb Simpson og Bill Haas höfðu áður numið við. Meðal liðsfélaga Ólafíu Þórunnar í Wake Forest var frænka Tiger Woods, Cheyenne Woods, sem einmitt komst á LPGA í fyrra, 2015.  Til þess að sjá afrek Ólafíu Þórunnar í bandaríska háskólagolfinu SMELLIÐ HÉR: 

Í Wake Forest kynntist Ólafía núverandi kærasta sínum Thomas Bojanowski og saman búa þau í Koblenz í Þýskalandi.

Áður en Ólafía hélt til háskólanáms í Bandaríkjunum tók Golf 1 viðtal við Ólafíu, sem sjá má með því að SMELLA HÉR: 

Ólafía var í kvennalandsliði Íslands sem tók þátt í heimsmeistaramót áhugamanna á Gloria golfvellinum í Antalya í Tyrklandi í september 2012.  Stelpurnar okkar urðu T-36 af 53 keppnislöndum en landslið Kóreu sigraði.

F.v.: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR; Valdís Þóra Jónsdóttir, GL og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK. Mynd: GSÍ

F.v.: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR; Valdís Þóra Jónsdóttir, GL og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK. Mynd: GSÍ

Þann 19. nóvember 2012 var að finna skemmtilegan spurningaleik á vefsíðu Wake Forest sem gekk út á hvor liðsfélaga Ólafíu Þórunnar í Wake Forest þekktu hana betur Marissa Dodd eða Greta Lange. Niðurstöðuna má sjá með því að SMELLA HÉR: 

Árið 2013 keppti Ólafía Þórunn m.a. í Ladies British Open Amateur Championship, en mótið var haldið í Suður Wales, dagana 11.-13. júní og var leikið á Machynys Peninsula vellinum, sem er strandvöllur (links) hannaður af Jack Nicklaus.

Þátttakendur í The Ladies British Open Amateur. F.v.: Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK; Sunna Víðisdóttir, GR og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR. Mynd: GSÍ

Aðeins nokkrum dögum síðar, þann 15. júní 2013 tók Ólafía Þórunn þátt í vígslumóti Korpunnar, sem er fyrsti og eini 27 holu golfvöllur Íslands. Ólafía Þórunn var á besta skorinu af öllum, bæði karl- og kvenkylfingum – lék á 69 glæsihöggum og sigraði þar að auki í punktakeppni kvenna, var á 38 punktum, en punktarnir reynast afrekskylfingum oft erfiðir. Þetta er bara Ólafía Þórunn, svona ótrúlega flott…

Ráshópur Ólafíu Þórunnar á Opnunarmóti Korpunnar 15. júní 2013. F.v.: Ólafía Þórunn, Ragnhildur, Halla Björk og Berglind. Mynd: Golf 1

Ráshópur Ólafíu Þórunnar á Opnunarmóti Korpunnar 15. júní 2013. F.v.: Ólafía Þórunn, Ragnhildur, Halla Björk og Berglind. Mynd: Golf 1

Í lok júní 2013 sigraði Ólafía Þórunn á Team Rudersdal Open mótinu, sem fram hefir farið nú um helgina 29.-30. júní í Furesö Golfklub í Danmörku. Keppendur í kvennaflokki voru 10 lokahringinn. Ólafía vann á 7 yfir pari, 220 höggum (70 74 76).

Tveimur vikum síðar,  nánar tiltekið í 11.-13. júlí 2013 var Ólafía Þórunn í liði Íslands  sem keppti á European Ladies´2013 en mótið fór fram í  FULFORD GOLF CLUB, YORK, í Englandi. Aðrar sem þátt tóku voru Anna Sólveig Snorradóttir, GK; Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK; Ragnhildur Kristinsdóttir, GR; Signý Arnórsdóttir, GK og Sunna Víðisdóttir, GR. Fyrir mótið tók Golf 1 viðtal við Ólafíu Þórunni og má rifja það upp með því að SMELLA HÉR:   Í viðtalinu má m.a. sjá að á þeim tímapunkti var markmið Ólafíu að komast á LET! … sem tókst.

Ólafía var í kvennalandsliði Íslands sem tók þátt í Espirito Santo Trophy,  eða HM kvenna eins og mótið nefnist hérlendis. Það fór fram í september 2014 í Japan. Íslenska liðið hafnaði í 29. sæti. Ungur kanadískur kylfingur vakti athygli á mótinu, Brooke Henderson, en hún sigraði í einstaklingskeppninni og spilar nú líkt og Ólafía Þórunn á LPGA.

Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari; Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, Sunna Víðisdóttir, GR; Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Haukur Örn Birgisson, forseti GSí, liðsstjóri. Mynd: Í einkaeigu

F.v.: Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari; Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, Sunna Víðisdóttir, GR; Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Haukur Örn Birgisson, forseti GSí, liðsstjóri. Mynd: Í einkaeigu

Í lok júlí 2014 varð Ólafía Þórunn Íslandsmeistari í höggleik í 2. sinn, eftir stórglæsilega frammistöðu á Leirdalsvelli þeirra GKG-inga. Af því tilefni tók Golf 1 meðfylgjandi viðtal við Íslandsmeistarann, sem sjá má með því að SMELLA HÉR: 

 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistari í höggleik í 2. sinn, 2014

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistari í höggleik í 2. sinn, 2014

Þann 25. september 2014 lék Ólafía Þórunn í fyrsta atvinnumannsmóti sínu, sem var Open Generali de Strasbourg mótið í Strasbourg, Frakklandi en mótið var hluti af LET Access mótaröðinni og var þriggja daga – spilað 25.-27. september. Ólafía stóð sig alveg hreint frábærlega og komst í gegnum niðurskurð.

Í nóvember 2014 reyndi Ólafía fyrir sér í Lalla Aicha Q-school Evrópumótaraðarinnar, en hafði ekki erindi sem erfiði. Henni til halds og trausts var móðir hennar Elísabet Erlendsdóttir, sem sagði dóttur sinni sögur meðan á mótinu stóð.  Þann 5. nóvember tók Ólafía Þórunn í notkun glæsilega facebook síðu sem sjá má með því að SMELLA HÉR: 

Það kom engum á óvart í lok árs 2014 að Íslandsmeistararnir Ólafía Þórunn og Birgir Leifur skyldu verða valin kylfingar ársins 2014.

F.v.: Ólafía Þórunn og Valdís Þóra. Mynd: Tinna Jóhannsdóttir

F.v.: Ólafía Þórunn og Valdís Þóra. Mynd: Tinna Jóhannsdóttir

Árið 2015 léku þær stöllur Ólafía Þórunn og Valdís Þóra Jónsdóttir, GL,  á LET Access mótaröðinni og var fyrsti glæsiárangur Ólafíu 5. sætið á ASGI meistaramótin, sem fram fór í Sviss í maí það ár.

Í nóvember 2015 tók Ólafía að nýju þátt í lokaúrtökumóti fyrir LET  í Marokkó og í þetta sinn náði hún inn, 2. íslenska konan sem það tekst, en sú fyrri Ólöf María Jónsdóttir, GK.   Síðan þá hefir Ólafía Þórunn nú á árinu m.a. tekið þátt í LET mótum í Abu Dhabi þar sem hún leiddi fyrstu tvo keppnisdagana, en varð síðan að sætta sig við T-26, sem og á Hero Ladies Indian Open þar sem hún náði ekki niðurskurði.

Ólafía á Indlandi 2016

Ólafía á Indlandi 2016

Þann 13. febrúar 2016 var Ólafía Þórunn valin kylfingur ársins hjá PGA á Íslandi.

Og nú dagana 30. nóvember – 4. desember 2016 er Ólafía Þórunn komin á LPGA … og ekki nóg með það heldur líka á glæsilegan hátt; landaði 2. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA!

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og bróðir hennar Kristinn Jósep. á lokaúrtökumótinu á Daytona Beach

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og bróðir hennar Kristinn Jósep. á lokaúrtökumótinu á Daytona Beach

Það verður gaman að fylgjast með Ólafíu Þórunni á LPGA keppnistímabilið 2016-2017.