Önnur mynd en sú sem birtist af Ólafíu með íslenska fánann í Women&Golf en allt eins góð … ef ekki betri…
Ragnheiður Jónsdóttir | desember. 1. 2016 | 19:45

Lokaúrtökumót LPGA: Ólafía T-10 e. 2. dag – Á glæsilegu skori 66 höggum!!! – „Fékk stuðning fjölda Íslendinga“

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, átti aldeilis hreint frábæran 2. hring í dag á Jones vellinum sem er talinn sá auðveldari af tveimur keppnisvöllum lokaúrtökumóts bestu kvenmótaraðar heims, LPGA, en hún hóf leikinn á þeim erfiðari af völlunum, Hills vellinum.

Efst eftir 2. dag er Solheim Cup kylfingurinn evrópski, Mel Reid, en Ólafía er ekki ókunnug henni, var m.a. í ráshóp með Reid á móti Evrópumótaraðarinnar í Abu Dhabi nú um daginn.

Reid er búin að spila á samtals 11 undir pari, 133 höggum (69 64).

Ólafía Þórunn er samtals búin að spila á 4 undir pari, 140 höggum (74 66); en enn er mikið golf eftir og oft ráðast úrslitin ekki fyrr en á lokaholunum á 5. og síðasta keppnisdag og eru þá oft miklar sviptingar.

Sem stendur er Ólafía Þórunn T-10 eftir 2. keppnisdag, en hún var T-72 eftir 1. keppnisdag, þegar hún lék Hills völlinn á 2 yfir pari og hefir því farið upp um 62 sæti milli daga.

Það er vonandi að framhaldið verði jafnglæsilegt hjá Ólafíu Þórunni og í dag.  Golf 1 sendir bestu baráttukveðjur!!!

Indverski kylfingurinn Aditi Ashok, sem sigrað hefir á 2 Evrópumótum í röð er T-27 eftir 2. dag á samtals 1 undir pari, 143 höggum (73 70).

Efstu 20 af lokaúrtökumótinu hljóta kortið sitt og þar með keppnisrétt á sterkustu kvenmótaröð heims, LPGA.

Gaman er að því að fjöldi Íslendinga er að fylgjast með Ólafíu Þórunni í Flórída og styður hana óspart, sbr. orð Ólafíu að loknum glæsihringnum 2. keppnisdaginn:

„„Það var ótrúlega gaman í dag, ég spilaði ótrúlega stöðugt golf og púttaði mjög vel. Ég hitti 15 flatir í tilætluðum höggafjölda og var með 28 pútt. Það var góð stemning á vellinum þar sem ég fékk góðan stuðning frá fjölda Íslendinga.

Þess skal getið að þátttakendur í lokaúrtökumótinu eru gríðarlega sterkir og hafa margir þeirra þegar reynt fyrir sér á LPGA, Evrópumótaröðinni eða öðrum sterkum kvenmótaröðum.

Sjá má stöðuna eftir 2. dag á lokaúrtökumóti LPGA með því að SMELLA HÉR: