Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 23. 2016 | 08:00

Ko hættir hjá Callaway

Það eru búnar að vera miklar breytingar hjá nýsjálensku nr. 1 á Rolex-heimslistanum, Lydiu Ko.

Fyrst kaddýinn hennar, síðan sveiflan, nú kylfurnar – og e.t.v. er það þjálfarinn næst.

Lydia getur í raun skipt 2016 í tvo helminga. Á fyrri helmingnum gekk henni vel; vann m.a. enn eitt risamótið og þar að auki 3 önnur mót á LPGA og tók silfrið í kvennaflokki fyrir Nýja-Sjáland í golfi; á fyrstu Ólympíuleikunum frá þar síðustu aldar- byrjun.

En á seinni hálfleiknum árið 2016 fór allt á verri veg og hún varð m.a. af öllum meiriháttar vegtyllunum eftir því sem keppnin og árið fór að taka sinn toll af henni; sérstaklega á síðustu tveimur mánuðunum.

Þó Ko sé enn með járngrip á efsta sæti Rolex-heimslistans; þökk sé framúrskarandi gengi hennar undanfarin 2 ár,  þá er hjörð ungra, blóðþyrstra kylfingsúlfynja á eftir henni, sem minnkað hafa bilið milli þeirra og Ko allverulega.

Ko er nú að sögn líka á barmi þess að skrifa undir nýjan golfútbúnaðarsamning.

Skv. hinum virta golfskríbent hjá Golf Digest,  Jaime Diaz, hefir hann eftir áreiðanlegum heimildum að Ko muni skipta frá Callaway og yfir til PXG, „en nýja fyrirtækið (PXG) býður mun hærri greiðslur.“

PXG, eða Parsons Xtreme Golf eru nýir á sviðinu hvað golfútbúnað varðar og þeir leggja áherslu á dýran boutique golfútbúnað.

Global Golf Post greindi frá því að Ko hafi flogið til Phoenix þar sem höfuðstöðvar PXG eru til þess að máta kylfurnar og gera allskyns tilraunir með nýju gripina.

Diaz telur að kylfuskiptin komi ekki án áhættu þar sem margir kylfingar hafi átt í erfiðleikum þegar skipt er um útbúnað.

Sem velþekkt dæmi mætti nefna að það tók  Rory McIlroy þó nokkurn tíma að aðlagast kylfuskiptunum úr  Titleist  yfir í Nike og dæmi eru þess að öðrum hafi aldrei gengið að aðlagast almennilega eftir að þeir skiptu um kylfur og kylfuframleiðendur.

Breytingin hjá Ko á kylfuframleiðanda kemur jafnframt í kjölfarið á því að hún sagði upp kylfusveini sínum Jason Hamilton og gerði auk þess meiriháttar breytingu á sveiflu sinni.

Maður spyr sig: Af hverju eru stórkylfingar að breyta einhverju sem hefir virkað vel fyrir þá?