Ragnheiður Jónsdóttir | nóvember. 16. 2016 | 07:00

GSÍ: Ísland hefir aldrei átt fleiri afrekskylfinga!

Í skýrslu stjórnar GSÍ, sem var lögð fram á formannsfundi sem fram fór 12.-13. nóvember s.l. á Selfossi kom m.a. eftirfarandi fram:

Íslendingar hafa aldrei átt betri eða fleiri afrekskylfinga en nú og það er bjart framundan í íslensku afreksgolfi.
Golfsambandið stóð fyrir og styrkti að þessu sinni 93 kylfinga til keppni í alþjóðlegum mótum, samanborið við 118 árið 2015. Árið 2014 voru ferðirnar 86 talsins. Til einföldunar og skýringar má segja að afrekskylfingar hafi farið í 93 keppnisferðir erlendis.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR. Mynd: LET

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR. Mynd: LET

Árangur keppenda var góður, sérstaklega í einstaklingsmótum. Vísast til skýrslu landsliðsþjálfara um árangur okkar landsliðsfólks og atvinnukylfinga á árinu. Þó ber sérstaklega að nefna frábæran árangur Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur, sem stóð upp úr á þessu ári. Í lok síðasta árs, á sínu fyrsta ári sem atvinnukylfingur, tókst Ólafíu að tryggja sér fullan þátttökurétt á Ladies European Tour og lék hún á þeirri mótaröð í ár. Hún hefur staðið sig einstaklega vel í þeim mótum sem hún hefur haft þátttökurétt í en frammistaða hennar í Abu Dhabi á dögunum fór ekki framhjá neinum.

Þó ber sérstaklega að nefna frábæran árangur Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur, sem stóð upp úr á þessu ári.
Forskot, afrekssjóður kylfinga, hélt áfram göngu sinni á þessu ári en öll fyrirtækin sem stofnuðu sjóðinn ákváðu í lok síðasta árs að halda samstarfinu áfram. Í Forskotsfjölskylduna bættist síðan tryggingafélagið Vörður. Golfsamband Íslands ásamt Íslandsbanka, Eimskip, Valitor, Icelandair Group og Verði standa því nú að sjóðnum og leggur hver aðili sjóðnum til 3,5 milljónir króna á hverju ári. Sjóðurinn hefur reynst okkar fremsta afreksfólki gríðarlega mikilvægur í viðleitni þeirra að komast á erlendar atvinnumannaraðir en á hverju ári er 21 milljón úthlutað úr sjóðnum til okkar fremstu kylfinga.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir í Indlandi

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir í Indlandi

Mennta- og menningarmálaráðurneytið undirritaði á árinu nýjan samning við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sem felur í sér stóraukin framlög til íslenskra afreksíþróttamanna. Samningurinn felur í sér að framlög ríkisins til afreksíþrótta munu hækka úr 100 milljónum í 400 milljónir króna á næstu þremur árum. Golfsamband Íslands hefur, undanfarin ár, fengið um 5,3 milljónir (5,3%) úr sjóðnum þrátt fyrir að vera 17% af íþróttahreyfingunni, miðað við félagafjölda. Það er því ljóst að mikil tækifæri eru til staðar í framtíðinni fyrir golfhreyfinguna að sækja aukið fé til ÍSÍ fyrir íslenska afrekskylfinga.