Ragnheiður Jónsdóttir | október. 24. 2016 | 10:00

Hver er kylfingurinn: Pádraig Harrington?

Pádraig Harrington sigraði á fyrsta stórmóti sínu í 8 ár í gær, þegar hann bar sigur úr býtum á 10. afmælisári Portugal Masters mótsins, sem fram fór í Vilamoura í Portúgal.

En hver er kylfingurinn Pádraig Harrington?

Pádraig Harrington fæddist 31. ágúst 1971, í Ballyroan-úthverfi í höfuðborg Írlands, Dublin og er því 45 ára. Hann er yngstur af 5 sonum Patrick og Bredu Harrington. Pabbi Pádraigs, alltaf nefndur “Paddy” (1933-2005), var í írsku lögreglunni “Garda”, og spilaði galískan fótbolta í Cork, á 5. áratug síðustu aldar og eins stundaði hann box, írsku þjóðaríþróttina, hurling og var með 5 í forgjöf í golfi. Synir hans fylgdu honum fljótlega á golfvöllinn.

Ballyroan er staðsett í Rathfarnham, sem er miðstéttarhverfi í suðurhluta Dublin, en það er einnig fæðingarbær tveggja annarra atvinnukylfinga, þeirra Paul McGinley og Peter Lawrie. Pádraig var í Coláiste Éanna barnaskólanum á sama tíma og hinir tveir kylfingarnir, en þó ekki á sama ári og McGinley. Skólanum þykir í dag mikill heiður af því að hafa alið upp tvo Ryder Cup kylfinga.

Þjálfari hins 1,86 m háa og 83 kg þunga Pádraigs er Bob Torrance, sem er faðir fyrrum Ryder Cup-fyrirliðans Sam Torrance.

Padraig Harrington ásamt fjölskyldu

Padraig Harrington ásamt fjölskyldu

Pádraig Harrington hefur þekkt eiginkonu sína Caroline, síðan þau voru smábörn. Þau giftust árið 1997 og eiga 2 syni: Patrick, sem fæddur er 2003 og Ciarán, sem fæddur er í nóvember 2007. Þegar Pádraig Harrington vann Opna breska árið 2007, greip Patrick litli míkrófóninn og spurði föður sinn hvort þeir gætu ekki sett “ladybirds”, (sem getur þýtt bæði stelpur eða maðka) í bikarinn? Tvíræðnin í spurningu saklauss barnsins olli mikilli kátínu meðal írsku þjóðarinnar og Harrington tók ítrekað fram í fjölmörgum viðtölum að sonur hans hefði líklega vilja setja maðka í bikarinn fína, sem hann vann á Opna breska… sem Írunum fannst fínt, líka!

Fornafn Harringtons, “Pádraig” er írska útgáfan af nafninu Patrick, sem er mjög algengt nafn á Írlandi. Eldri bræður hans 4 bera allir írsk nöfn (Tadgh, Colomb, Fintan og Fergal).

Frá árinu 2004 hefur caddy Pádraigs verið Ronan Flood, sem líka er mágur hans. Ronan Flood hefur síðan 2007 verið kvæntur systur eiginkonu Pádraigs, Susan. Ronan Flood er fv. aðstoðarbankastjóri, sem er með 2 í forgjöf í golfi og er líka yngri bróðir eins af æskuvinum Pádraigs. Svona eru Írarnir líkir okkur Íslendingum… sterk fjölskyldu- og vinatengsl!

Pádraig Harrington

Pádraig Harrington

Eftir útskrift úr menntaskóla nam Pádraig endurskoðun, meðfram áhugamannaferli sínum í golfinu. Hann stóðst lokaprófin árið 1994 og hlaut inngöngu í ACCA (Association of Certified Chartered Accountants). Pádraig hefir hins vegar mjög litla verklega reynslu af endurskoðunarstörfum.

Pádraig Harrington er eins og er í 97. sæti á heimslista yfir bestu kylfinga heims, aftur kominn á topp-100 eftir sigurinn, en hann var fallinn niður í 159. sæti heimslistans og fer því upp um 62 sæti vegna sigursins í Vilamoura.  Fyrir 8 árum var Harrington í 7. sæti heimslistans. Spurning hvort hann komi sér aftur meðal topp 10 eða a.m.k. meðal topp 50 á heimslistanum.

Pádraig varð atvinnumaður í golfi árið 1995 og hefur spilað á Evróputúrnum síðan á árinu 1996 og á PGA-mótaröðinn frá 2005. Alls hefur Pádraig unnið til verðlauna 25 sinnum, þar af 5 sinnum á PGA-mótaröðinni, 14 sinnum á Evróputúrnum (lenti í öll skiptin í 15. sæti, ásamt öðrum) og hvað risamótin 4 snertir varð hann jafn öðrum í 5. sæti árið 2002 og 2008 á Masters. Á Opna bandaríska lenti hann í 5. sæti árið 2000 og 2006. Harrington vann Opna breska 2007 og 2008 og loks vann hann PGA Championship 2008.

Að undanskildum Tiger Woods, sem hefur unnið samfellt risamót í þrígang (2000, 2002 og 2006), þá er Tiger Woods fyrsti kylfingurinn til þess að sigra á tveimur risamótum sama árið, síðan Mark O´Meara vann það afrek árið 1998 og sá fyrsti til að vinna samfellt risamót á sama árinu, allt frá því Nick Price tókst það, árið 1994.

Jafnframt er Pádraig Harrington, fyrsti kylfingurinn í aldarfjórðung, að undanskildum Tiger Woods, til þess að vinna 3 af 6 risamótum samfellt, síðan Tom Watson afrekaði það árið 1983, en þetta er nokkuð sem einungis 4 öðrum kylfingum hefur tekist – Ben Hogan, Arnold Palmer, Jack Nicklaus og Lee Trevino – eða allt frá því að nútíma “Grand Slam” var skilgreint, sem sigur á 4 risamótum, árið 1950.

Loks hefur Pádraig Harrington unnið til fjölmargra viðurkenninga í golfíþróttinni. Þannig var honum veitt Order of Merit fyrir góðan árangur á Evróputúrnum árið 2006; Hann var valinn kylfingur Evróputúrsins, 2007 og 2008. Hann var valinn PGA kylfingur ársins 2008 og leikmaður PGA-mótaraðarinnar, 2008.

En það hefur fátt bitastætt verið í fréttum um Harrington undanfarin 8 ár, þar til hann nú, 45 ára, árið 2016, sigrar að nýju!