Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 18. 2016 | 07:00

Misstu af frábærum Ólympíuleikum!!!

Jordan Spieth, Jason Day, Rory McIlroy, Dustin Johnson, Adam Scott, Hideki MatsuyamaVijay Singh o.fl. o.fl tóku ekki þátt í Ólympíuleikunum þ.e. flestir bestu og fyrrverandi bestu kylfingar heims.

Margir telja að ofanritaðir kylfingar hafi ekki tekið þátt vegna þess að ekkert verðlaunafé er á Ólympíuleikunum samanborið við risamótin, heimsmótin, Players eða önnur stórmót í golfheiminum. Gulrótina hafi vantað!

Auðvelt hafi síðan verið að benda á ástæður eins og Zika-vírusinn, sem fyrirslátt fyrir að taka ekki þátt, en ef út í það er farið eru hættur allsstaðar í heiminum og ekki hægt að lifa svo sótthreinsuðu sápukúlulífi að ekki fylgi ákveðin áhætta í raun öllu sem við gerum ef út í það er farið.

Gullmedalíuhafi Ólympíuleikanna 2016 Justin Rose lét nú fyrir stuttu hafa eftir sér í viðtali við Feherty að hann vonaðist til að þær stórstjörnur sem ekki hafi tekið þátt sjái nú eftir því!

Burt séð frá öllum eigingjörnum ástæðum fyrir að taka ekki þátt þá misstu þessir kylfingar af því að ná athygli og áhorfi 3,5 billjóna manna víðsvegar um heim og kynna sig og golfíþróttina í leiðinni.  Þetta er e.t.v. nokkuð sem golfsambönd víðsvegar um heim veita líka athygli því þegar allt kemur til alls er enginn ómissandi og e.t.v. síðar meir hægt að setja Ólympíuþátttöku sem skilyrði þess að taka megi þátt í einu eða fleirum stórmótum golfíþróttarinnar þ.e.a.s. skilyrða þá, sem á annað borð fá tækifæri til að taka þátt í Ólympíuleikunum.

Þeir sem höfðu það tækifæri nú, misstu það einfaldlega úr greipum sér og það færi kemur aldrei aftur…. a.m.k. ekki færið á að taka þátt í FYRSTU Ólympíuleikunum í 122 ár þar sem golf er meðal keppnisgreina.

Þeir stjörnukylfingar sem ekki tóku þátt misstu líka af fagnaðarlátunum sem hvergi er meira en á Ólympíuleikunum m.a. var eini kylfingur Brasilíu, Adilson da Silva. hylltur eftirminnilega.

Ólympíuleikarnir eru stærsti íþróttaviðburður jarðarkringlunnar …. og margar stórstjörnur golfsins misstu af þeim!!!