Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 12. 2016 | 08:00

Dýr á golfvöllum: Capybara á Ólympíugolfvellinum í Ríó

Eitt af því sem kylfingar kynnast þegar þeir spila á golfvöllum fjarri heimavöllum sínum er það dýralíf, sem þrífst á vellinum.

Ólympíufararnir í golfi 2016 hafa kynnst dýri, sem ekki allir kannast við en það er Capybara, sem kann bara ansi vel við sig á Ólympíuvellinum í Ríó.

Þegar lýsa á hvað Capybara eru útgáfurnar margar.

Matt Kuchar sagði t.d. um Capybara: „Þetta er áhugaverð blanda – það hefur lítið elgshöfuð á búk risarottu!

Framkvæmdastjóri USA GOLF Andy Levinson lýsti Capybara svona: „Mér finnst það líta út eins og hundur. Næstum því eins og svínahundur (dog-pig) með risahaus.“

Fyrir hönd Spánverja keppa Sergio Garcia og Rafa Cabrera Bello. Garcia sagði að sér fyndist Capybara líta út eins og mongús líka nefnt mangar á íslensku. „Þeir eru risastórir. Ég sá nokkrar myndir (áður en ég kom til Ríó) en bjóst ekki við þeim svona stórum.“

Tæknimaður Alþjóðagolfsambandsins Tyler Dennis lýsti þeim svo „Þetta er eins og blendingur míníflóðhests, svíns og nokkurra annarra dýra sem koma í hugann,“ Síðan bætti Dennis við „dýrin eru nokkuð þung – ég hef einnig heyrt – en þetta gæti bara verið kjaftasaga – að meðan að þeir bíta ekki – þá ráðast þeir á mann. Þannig að það verður að fara varlega.“

Adilson da Silva ætti að þekkja Capybara betur en nokkur annar, því hann er jú eini keppandinn í golfi frá Brasilíu. Hann lýsti Capybara svo: „Þeir eru eins og svín. Þeir eru risastórir – ég hef aldrei séð svona stór dýr. Ég kem frá Suður-Brasilíu og þar eru Capybara miklu minni.“

Jhonattan Vegas frá Venezuela hefir séð nokkur Capybara-dýr um ævina, en hann er hins vegar á annarri skoðun: „Okkar (Capybara) eru allt eins stór eða jafnvel stærri.“

Ef leitað er að lýsingum á Capybara á veraldarvefnum sjást lýsingar eins og: „risastórt, langleggjað gíneusvín“ eða „rófulaust nagdýr sem lifir til jafns á landi og í vatni.“

En kannski er þessi lýsing skýrust: „Þetta er stærsta nagdýr í heimi.“  – Sem sagt nagdýr í Ólympíustærð.

En það eru fleiri dýr á vellinum en kylfingarnir og capybara. T.a.m. Caiman-krókódílar (sem eru í vatnshindrun Ólympíugolfvallarins við 9. holu og við 10. braut); Letipattar/letidýr (samansett nýyrði af danska orðinu dovendyr/pattedyr og þýska orðinu Faultier. Á ensku nefnist letipatti/letidýr three-toed sloth)

Letipatti - lýst er eftir betra íslensku orði?

Letipatti/letidýr – lýst er eftir betra íslensku orði?

Bóa slöngur (ens. Boa constrictors) eru einnig á svæðinu og apar, þó erfitt sé að sjá þá. Sumir segja apana vera við 16. holu aðrir að þeir haldi sig á 2.-3. holu.

En það er uglur sem hafa valdið usla – þeim líkar einkar vel (þ.e. tegund sem nefnist ground-nesting owls) að grafa sig í sandglompur, sem veldur auðvitað erfiðleikum í leik.

Ég hugsa að í 80% sandglompanna hafi verið uglur,“ sagði Mark Johnson, sem sér um vallarfræði (agronomy) hjá PGA Tour og er í starfi (einn af tveimur agronomists) á Ólympíuleikunum.

Um Ólympíugolfvöllinn sagði Jhonattan Vegas frá Venezuela. „Maður sér ekki mikið af þessu (dýralífi) í Bandaríkjunum eða Evrópu. Þetta er gott sýnishorn af (dýralífi í) Brasilíu og svolítið líka af Suður-Ameríku.“

Kuchar bætti við: „Ég er viss um að fólkið hér hlær að okkur en það er alltaf gaman að sjá öðruvísi dýralíf.“

Kannski að Rickie Fowler hafi komist best að orði:

Þeir hafa staðið sig frábærlega við gerð golfvallarins og hafa viðhaldið nokkru af hefðbundu dýralífi á vellinum. Ef ég væri Capybara myndi ég vilja búa hér á Ólympíuvellinum.