Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 4. 2016 | 07:00

Frisbígolf á Klambratúni

Það er til fleira golf en bara hefðbundið golf, sem flestir kylfingar elska.

T.a.m. knattspyrnugolf og er einn slíkur völlur rétt utan við Flúðir og síðan 9 holu Frisbígolfvöllur í hjarta Reykjavíkur, á Klambratúni við Kjarvalsstaði.

Í frisbí er notaður frisbeediskur í stað golfkúlu og leikurinn því oft kallaður Folf.

Folf er því spilað líkt og hefðbundið golf, nema með frisbídiskum. Köstin eru talin sem tekur að koma disknum í rétta körfu og takmarkið að kasta allar brautir í sem fæstum tilraunum. Eftir fyrsta kast er það næsta tekið þar sem diskurinn liggur og þarf sá fótur sem nær er körfu að vera þar sem diskurinn lá. Skipta má um diska milli kasta. Sá spilari sem lengst er frá körfu tekur fyrsta kast.

Tillitssemi er stór hluti af leiknum (líkt og í hefðbundnu golfi). Sanngjarnt er að mótspilari í Folfi fái að kasta án truflunar, það sama myndi hver og einn leikmaður vilja. Það á ekki að taka kast fyrr en vissa er fengin að flug disksins og lending trufli ekki hina spilarana eða fólk sem er á svæðinu. Góð regla er að stíga ekki í blómabeð eða skemma gróður, en hefð er fyrir að frisbí sé spilað í skrúðgörðum eða almannagörðum.