Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 3. 2016 | 15:00

Góður árangur í Skotlandi hjá 4 ungum íslenskum kylfingum

Fjórir íslenskir kylfingar luku í gær keppni á US Kids European Championship, en mótið fór fram á nokkrum golfvöllum í Skotlandi, 31. maí – 2. júní 2016.

Íslensku keppendurnir voru eftirfarandi: Elísabet Ágústsdóttir GKG, sem keppti í flokki 15-18 ára stúlkna; Flosi Valgeir Jakobsson GKG, keppti í flokki 13 ára stráka og Kjartan Óskar Guðmundsson NK og Sigurður Arnar Garðarsson GKG, sem kepptu í flokki 14 ára stráka.

Bestum árangri náði Sigurður Arnar Garðarsson, GKG, en hann keppti í flokki 14 ára stráka, líkt og Kjartan Óskar, NK.  Sigurður Arnar varð í 4. sæti af 32 keppendum, með skor upp á 7 yfir pari (71 78 74). Glæsilegt hjá Sigurði Arnari!!!

Kjartan Óskar var ekki síður flottur hafnaði í 11. sæti á 16 yfir pari, en leikur hans fór sífellt batnandi eftir því sem leið á mótið (80 77 75).

Flosi Jakobsson, GKG lék í flokki 13 ára stráka. Hann varð T-19 af 58 keppendum, sem er glæsilegur árangur. Skor hans var 23 yfir pari (80 80 79).

Elísabet lék á samtals 39 yfir pari, 255 höggum (86 86 83) og hafnaði í 7. sæti af 10 keppendum í sínum flokki 15-18 ára stúlkna.

Sjá má lokastöðuna á US Kids European Championship í öllum flokkum með því að SMELLA HÉR: