Valdís Þóra Jónsdóttir, GL. Mynd: Golf 1
Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 26. 2016 | 10:00

Valdísi Þóru gengur vel í endurhæfingunni

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni á Akranesi, er á góðum batavegi eftir aðgerð á þumalfingri. Valdís fór í nokkuð viðamikla aðgerð í byrjun febrúar s.l.

Hún stefnir á að keppa á sínu fyrsta móti á LET Access atvinnumótaröðinni, næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, sem fram fer á Spáni 11.-13. maí n.k.

Valdís er að hefja sitt þriðja keppnistímabil á LET Access mótaröðinni. Hún endaði í 23. sæti á styrkleikalista LET Access mótaraðarinnar í fyrra en þar lék hún á alls 13 mótum. Á keppnistímabilinu árið 2014 lék Valdís einnig á 13 mótum og þar endaði hún í 38. sæti stigalistans.

Valdís skrifar eftirfarandi á fésbókarsíðu sína um stöðu mála hjá sér:

Kæru vinir!
Lífið er gott á Spáni. Þar sem eg er aðfara spila mínar fyrstu 18 holur í dag þa hef eg ákveðið að fara ekki i Sviss mótið enda ekki komin í spilaform. Ég hef farið 9 holur tvisvar og það gekk bara vel. Sveiflan er enn til staðar og lengdirnar mínar en það er mikill léttir enda veit maður aldrei við hverju maður á að búast við þegar það er búið að krukka aðeins í manni 😉 ég verð því her á Spáni til 4. Mai og kem heim til þess að klára undirbúning fyrir styrktarmótið mitt sem haldið verður þann 4. Júní. Þann 8. Mai held ég svo aftur til Spánar í fyrsta mótið mitt og ég er mjög spennt að byrja keppa aftur!
Bestu kveðjur heim úr sólinni og blíðunni á Spáni.

Heimild: golf.is