Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 3. 2016 | 13:00

GR: Flightscope komið í Bása!

Á heimasíðu GR má lesa eftirfarandi frétt frá Andrési Jóni, íþróttastjóra GR:

Ef þið hafið horft á golf í sjónvarpi hafið þið eflaust séð á skjánum ýmsar upplýsingar t.d. kylfuhraða eða boltahraða. Þessar upplýsingar koma frá ratsjá sem staðsett er í höggstefnu kylfings. Í dag eru til nokkrar gerðir af ratsjám og munum við taka eina slíka í notkun í Básum á næstu dögum, Flightscope er nýjung sem verður í boði fyrir félagsmenn og aðra kylfinga sem hafa áhuga á að nýta sér þessa tækni.

Flightscope er 3D Doppler ratsjá fyrir golf og fleiri íþróttir. Tækið sendir út lága tíðni rafsegulsviðs sem mælir nákvæmlega flugtakshorn, flug golfboltans ásamt hreyfingum og ferlum golfkylfu í sveiflu leikmannsins.

Með mælingum úr Flightscope, er hægt að sjá eftirfarandi mælingar tengdar golfbolta:

Boltahraða (Ball Speed).
Lóðrétt flugtakshorn (launch angel, hvernig boltinn tekur á loft frá 0 punkti)
Nýtnistuðul (smashfactor er hlutfall boltahraða og kylfuhraða)
Snúningshraði bolta (spin rate)
Snúningsás bolt (spin axis, boltasveigja til hægri eða vinstri)
Fluglengd (carry distance)
Heildarlengd (total distance)
Högg dreifing, (shot distribution)
Topp hæð (apex height)
Flokkun högga (classification, dreginn bolti, slæs bolti o.s.frv.)

Flightscope mælir einnig með mikilli nákvæmni hvað kylfan gerir í sveiflu leikmanns, meðal annars:

Kylfuhraði (clubhead speed)
Stefnu höggflatar (face angel)
Áfallshorn (angel of attack)
Kylfuferill (club path)
Raunflái höggflatar (Dynamic loft)
Þessar upplýsingar gera það að verkum að greining golfsveiflu er styttri og markvissari sem gerir golfkennurum kleift að vinna mun nákvæmara og hraðar að lausnum og auknum framförum kylfinga.

Pantaðu þér tíma í Flightscope!

Hægt er að panta tíma hjá Andrési Jón Davíðssyni í gegnum netfangið andres@grgolf.is