Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 20. 2016 | 16:45

Evróputúrinn: Stuttbuxur leyfðar á æfingahringjum

Að kylfingar séu í stuttbuxum á PGA Tour mótaröðinni bandarísku er stranglega bannað. Kaddýum er hins vegar leyft að vera í stuttbuxum þökk sé reglubreytingu sem átti sér stað 1999.   Sú breyting kom nú ekki til að góðu heldur var það svo að Garland Dempsey, sem var kaddý John Maginnes, fékk hjartaáfall á Western Open 1999. Það er beinlínis heilsuspillandi að vera of mikið klæddur þegar veðrið er þannig að manni finnst maður ekki geta náð andanum eða vill rífa sig úr hverri spjör og vera í ískaldri sundlaug.

Evrópumótaröðin er þar aðeins frjálslyndari en nú er búið að leyfa kylfingum þeirrar mótaraðar að vera í stuttbuxum… a.m.k. á æfingahringjum.

Stuttbuxur er mál sem lengi hefir verið barist fyrir enda beinlínis óþægilegt að þurfa að keppa í buxum með löngum skálmum í 30-40 gráðu hita að sumarlagi og reglan í sjálfu sér of vitleysislega íhaldsöm.

Sá sem barist hefir hvað ákafast fyrir notkun stuttbuxna er Ryder bikars fyrirliði liðs Evrópu, Darren Clarke.

Honum tókst að sannfæra nýjan framkvæmdastjóra Evrópumótaraðarinnar Keith Pelley að breyta reglunum þannig að leikmönnum yrði leyft að vera í stuttbuxum á æfingahringjum nú nýlega í EvrAsíubikarnum.

Og framhald var á stuttbuxnabyltingunni en Clarke og Lee Westwood voru báðir í stutbuxum á æfingahringjum fyrir Abu Dhabi Championship, sem hefst á morgun og mótanefnd Evrópmótaraðarinnar fundaði um málið í gærkvöldi, 19. janúar 2016, þannig að verið gæti að þær yrðu bara almennt leyfðar á mótaröðinni.

Ian Poulter, er einn þeirra sem er mikill stuðningsmaður stuttbuxnanna.

Þetta er fullkomlega rökrétt í mínum huga,“ sagði Poulter í viðtali í Golfweek á þriðjudaginn. „Þetta ætti ekki að vera neitt vandamál að leyfa okkur að vera í stuttbuxum á æfingjahringjum. Þannig að ég verð berleggjaður á morgun. Staðreyndin er sú að ég sé ekki vandamálið við að vera í stutbuxum á mótum. Ég meina það er nú einu sinni komið 2016.“

Mótanefnd Evróputúrsins leyfði síðan opinberlega að leikmenn gætu klæðst stuttbuxum á æfingahringjum eftir fundinn í gær. Lifi stutbuxnabyltingin!