Ragnheiður Jónsdóttir | október. 30. 2015 | 14:00

Henning Darri stigameistari í piltaflokki á Íslandsbankamótaröðinni

Það var Henning Darri Þórðarson, GK, sem varð stigameistari í flokki 17-18 ára pilta á Íslandsbankamótaröðinni og var heiðraður fyrir þann árangur á Uppskeruhátíð GSÍ, sem fram fór 28. október s.l.  Hann sigraði alls 3 sinnum á Íslandsbankamótaröðinni í ár, en vann engan Íslandsmeistaratitil að þessu sinni. Hlynur Bergsson, GKG er Íslandsmeistari pilta í höggleik 2015 og Tumi Hrafn Kúld, GA er Íslandsmeistari pilta í holukeppni 2015.

Efstu menn á stigalista Íslandsbankamótaraðarinnar í piltaflokki voru eftirfarandi:

1. Henning Darri Þórðarson, GK 7588.75 stig.
2. Hlynur Bergsson, GKG 7185.00 stig.
3. Björn Óskar Guðjónsson, GM 6260.00 stig.

Á fyrsta mótinu sem fram fór upp á Skaga á Garðavelli þeirra Leynismanna sigraði Björn Óskar og Henning Darri varð T-3 ásamt Vikari Jónassyni. Hlynur Bergs varð í 6. sæti af efstu mönnum stigalistans í piltaflokki.

Frá vinstri: Ragnar Ólafsson, Hákon Örn, Björn Óskar, Henning Darri og Vikar. /Mynd Guðmundur Sigvaldason, Leynir:

Frá vinstri: Ragnar Ólafsson, Hákon Örn, Björn Óskar, Henning Darri og Vikar. /Mynd: Guðmundur Sigvaldason, Leynir. 

 

Á 2. mótinu, sem var Íslandsmótið í holukeppni var það bara Hlynur sem komst á verðlaunapall af efstu mönnum stigalistans en hann hafnaði í 2. sæti.

Þriðja mótið fór fram á Húsatóftsvelli í Grindavík. Þar sigraði Henning Darri á glæsiskori samtals 2 undir pari. Hlynur varð í 2. sæti og Björn Óskar í 5. sæti.

F.v.: Hákon, Hlynur Íslandsmeistari og Henning Darri. Mynd: GSÍ

F.v.: Hákon, Hlynur Íslandsmeistari og Henning Darri. Mynd: GSÍ

Fjórða mót Íslandsbankamótaraðarinnar var Íslandsmótið í höggleik sem fram fór á Korpunni. Það sigraði Hlynur Bergs, GKG og er hann því Íslandsmeistari í höggleik pilta 2015. Henning Darri varð í 3. sæti á Íslandsmótinu en Björn Óskar í 8. sæti.

Henning Darri Þórðarson, GK (f.m.) sigurvegari á 5. móti Íslandsbankamótaraðarinnar 2015 á Hamarsvelli í Borgarnesi.  Mynd:: gsimyndir.net

Henning Darri Þórðarson, GK (f.m.) sigurvegari á 5. móti Íslandsbankamótaraðarinnar 2015 á Hamarsvelli í Borgarnesi. Mynd:: gsimyndir.net

Á 5. móti Íslandsbankamótaraðarinnar sem fram fór á Hamarsvelli í Borgarnesi sigraði Henning Darri einnig, en hann var á samtals skori upp á 2 yfir pari og átti heil 7 högg á Hlyn Bergs, GKG sem varð í 2. sæti.  Björn Óskar varð í 3. sæti.

Verðlaunahafar í flokki 17-18 ára á 6. móti Íslandsbankamótaraðarinnar 4.-6. september 2015. Mynd: golf.is

Verðlaunahafar í flokki 17-18 ára á 6. móti Íslandsbankamótaraðarinnar 4.-6. september 2015. Henning Darrri 4. f.v. Mynd: golf.is

 

Henning Darri sigraði á 6. mótinu á heimavelli sínum, Hvaleyrinni í Hafnarfirði, var á samtals 11 yfir pari og munaði aðeins 1 höggi á honum og Birni Óskari sem landaði 2. sætinu.  Hlynur varð í 15. sæti í þessu síðasta móti Íslandsbankamótaraðarinnar.