Ragnheiður Jónsdóttir | október. 23. 2015 | 12:00

Kristján Þór T-6 á Evrópumóti golfklúbba!!!

Karlasveit Golfklúbbs Mosfellsbæjar (GM) er í góðri stöðu eftir fyrsta keppnisdaginn af alls þremur á Evrópumóti golfklúbba sem fram fer á Kýpur.

GM er í öðru sæti á -2 samtals í liðakeppninni eftir fyrsta hringinn en tvö bestu skorin hjá hverri sveit telur í liðakeppninni.

Sveit GM er þannig skipuð: Björn Óskar Guðjónsson, Kristján Þór Einarsson og Theodór Emil Karlsson.

Sigurpáll Geir Sveinsson íþróttastjóri GM er með í för.

Kristján Þór og Theodór Emil léku báðir á 70 höggum í gær eða -1 en Björn Óskar var á 73 höggum eða +2.

Í dag, 2. keppnisdegi lék Kristján Þór á 71 höggi og er því á samtals 1 undir pari og T-6; Björn Óskar og Theodór Emil eru báðir T-35, báðir búnir að spila á samtals 9 yfir pari, 151 höggi; Björn Óskar (73 78) og Theodór Emil (70 81).

Leikið er á Minthis Hill vellinum og á heimasíðu GM kemur fram að völlurinn sé frekar stuttur eða 5811 metrar en hann er nokkuð þröngur og krefjandi. Mótið stendur 22.-24. október 2015 og lýkur því á morgun.

Sveit Golfklúbbs Mosfellsbæjar sigraði í sveitakeppni GSÍ í 1. deild sem fram fór á Hamarsvelli í ágúst s.l. og er það í fyrsta sinn sem klúbburinn fagnar þessum titli.

Sjá má stöðuna á Evrópumóti golfklúbba með því að SMELLA HÉR