Ragnheiður Jónsdóttir | október. 14. 2015 | 07:00

Bandaríska háskólagolfið: Haraldur Franklín kylfingur mánaðarins í Sun Belt deildinni

Haraldur Franklín Magnús, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, hefur náð góðum árangri á fyrstu þremur mótum keppnistímabilsins í háskólagolfinu í Bandaríkjunum. Haraldur, sem leikur með Louisiana – Lafayette háskólaliðinu, var kjörinn kylfingur septembermánaðar í Sun Belt deildinni.

Árangur Íslandsmeistarans frá árinu 2012 á fyrstu þremur mótum tímabilsins er sá besti á háskólaferli hans til þessa. Haraldur hefur verið á meðal 10 efstu á þremur mótum og meðalskor hans er 69,67 högg sem er það 12. besta á landsvísu í bandaríska háskólagolfinu.

Haraldur hefur leikið á pari eða betur á átta hringjum af alls níu og besta skor hans á 54 holum á þessu tímabili er 6 högg undir pari vallar. Því skori náði hann á Sam Hall mótinu þar sem hann endaði í sjöunda sæti. Haraldur endaði í fjórða sæti á -5 höggum undir pari á Sun Belt Conference Fall Preview mótinu.

Hann var á -4 samtals á Cabo Del Sol mótinu þar sem hann varð einnig í fjórða sæti. Haraldur er á lokaári sínu hjá Louisiana – Lafayette háskólaliðinu og hann hefur tvívegis leikið á 67 höggum í móti á þessu tímabili sem er besti árangur hans á háskólaferlinum.

Næsta mót hjá Haraldi og félögum er í þessari viku þar sem leikið verður á David Toms mótinu.