Golfskáli Golfklúbbs Siglufjarðar að Hóli. Að baki golfskálanum er ein 2. brautin sem er ein sérstakasta braut sem Guðmundur hefir spilað Mynd: Golf 1.
Ragnheiður Jónsdóttir | október. 11. 2015 | 12:00

GKS: Golfsumarið 2015 hjá Golfklúbbi Siglufjarðar e. Ingvar Kr. Hreinsson

Golfsumarið 2015 byrjaði á svipuðum nótum og síðasta sumar.  Völlurinn var blautur og veður kalt framan af sumri (sumarið kom reyndar ekki fyrr en í ágúst).  fella varð niður tvö fyrstu mótin í Rauðkumótaröðinni og var fyrsta mót sumarsins ekki haldið fyrr en 17. júní, en það var þjóðhátíðarmót Everbuild í boði SR-Bygg.  Á dagskrá sumarsins voru 18 mót.  Rauðkumótaröðin var að vanda mjög vegleg, 10 mót voru haldin á miðvikudagskvöldum í sumar og veitt Rauðka glæsileg verðlaun fyrir 3 fyrstu sætin í hverju móti; sigurvegari mótaraðarinnar þ.e. stigameistari sumarsins varð Sævar Kárason, í öðru sæti varð Ingvar Hreinsson og í þriðja sæti hafnaði Þorsteinn Jóhannsson.

Meistaramót fór fram helgina 11.-12. júlí Úrslit urðu eftirfarandi:

Fyrsti flokkur karla  

1 Ingvar Kr. Hreinsson 247 högg

2 Þorsteinn Jóhannsson 253 högg

3 Sævar örn Kárason 255 högg

Annar flokkur karla

1 Kári Arnar Kárason   272 högg

2 Arnar Freyr Þrastarson  278 högg

3 Ólafur Þór Ólafsson  291 högg

Flokkur kvenna

1 Hulda Guðveig Magnúsardóttir   292 högg

2 Ólína Þórey Guðjónsdóttir  294 högg

3 Ragnheiður H. Ragnarsdóttir  331 högg

Siglfirðingamótið var haldið í Kópavogi 23. ágúst.  Þátttakendur voru 72.  Þetta er í fimmta sinn sem mótið er haldið og er orðinn fastur liður í mótaksránni hjá Siglufjarðar elítunni.  Stjórn GKS vill koma á framfæri kæru þakklæti til skipuleggjenda.

Framkvæmdum við nýja golfvöllinn miðar þokkalega, þó fannst okkur golfurum dragast úr hófi að byrja framkvæmdir í vor og fór að okkar mati heill mánuður forgörðum vegna þessa.  En eftir að menn brettu upp ermar hefur ótrúlega miið gerst í sumar.  Áætlanir um að búið yrði að sá í allan völlinn fyrir haustið gengu þó ekki eftir.  Þar má um kenna að utanaðkomandi verktaki sem lofaði að koma strax eftir Verslunarmannahelgi til að harpa efni í síðustu tvær brautirnar kom ekki fyrr en um miðjan september. Vonir standa þó til að þetta seinki ekki verklokum.

Félagsmenn í GKS hafa mætt nokkrum sinnum í sjálfboðavinnu á nýja völlinn.  Færa hefur þurft lítil tré, grjóttína og snurfusa hér og þar.  Er fyrirséð að næsta sumar verið félagsmenn í GKS að leggja á sig töluverða sjálfboðavinnu til að stuðla að opnun sem fyrst.

Stjórn golfklúbbsins vill þakka þeim fjölmörgu styrktaraðilum sem haldið hafa tryggð við klúbbinn í gegnum tíðinna og hlakkar til áframhaldandi samstarfs.

Ingvar Kr. Hreinsson, formaður GKS