Ragnheiður Jónsdóttir | september. 30. 2015 | 12:00

GVG: Frábær stemming á 20 ára afmælishátíð Golfklúbbsins Vestarr í Grundarfirði!

Fjölmenni var á 20 ára afmælishátíð Golfklúbbsins Vestarr í Grundarfirði sem fram fór um s.l. helgi. Veglegt afmælishátíð fór fram í félagsheimilinu í Grundarfirði þar sem á annað hundrað gestir voru saman komnir en félagafjöldinn í Vestarr er um 80 manns.

Sigurður Hlöðversson eða „Siggi Hlö“ var veislustjóri og sá um að halda uppi góðri stemmningu fram eftir kvöldi. Mörg skemmtiatriði voru á afmælishátíðinni frá félagsmönnum og voru m.a. þrjú myndbönd frumsýnd þar sem innra starf klúbbsins var krufið til mergjar með ýmsum hætti.

Fólk var farið að dansa upp á borðum svo mikil var stemmingin!

1-a-stemming

 

Bergsteinn Hjörleifsson stjórnarmaður Golfsambands Íslands færði klúbbnum gjöf frá GSÍ og veitti einnig tveimur félögum úr Vestarr silfur – og gullmerki GSÍ. Anna María Reynisdóttir fékk silfurmerki GSÍ og Guðni E Hallgrímsson fékk gullmerki GSÍ.

Á sunnudeginum fór fram afmælismót Vestarr á glæsilegum Bárarvelli sem við austanverðan Grundarfjörð.
Um 40 keppendur hófu leik við frekar erfiðar aðstæður, en mikill vindur var á Bárarvelli og undir lok mótsins gerði úrhellisrigningu og hættu nokkrir keppendur í þeim aðstæðum. Bryndís Theodórsdóttir úr GVS sigraði í punktakeppninni á 35 punktum en Margeir Ingi Rúnarsson úr GMS sigraði í höggleikskeppninni á ótrúlega góðu skori miðað við aðstæður, 77 högg eða +5.

Golfklúbburinn Vestarr var stofnaður 27. júlí árið 1995 og aðeins nokkrum árum síðar var myndarlegur golfvöllur risinn í landi Suður-Bár. Gott útsýni er frá vellinum yfir Grundarfjörð og nær landið yfir um 18 hektara. Stofnfélagar voru 48 talsins en nafnið Vestarr er fengið frá landnámsmanni sem nam land í þeim hluta Eyrarsveitar þar sem golfvöllurinn er í dag.

Sjá má myndir frá afmælis- og árshátíð Golfklúbbsins Vestarrs á Grundafirði með því að SMELLA HÉR: