Ragnheiður Jónsdóttir | september. 1. 2015 | 08:00

Heimslistinn: Rory nr. 1 aftur

Rory McIlroy er aftur nr. 1 á heimslistanum. Sem stendur.

Jafnvel þó hann hafi ekki tekið þátt í 1. móti FedEx Cup umspilsins þá fór hann fram úr Jordan Spieth á Heimslistanum.  Spieth sem var nr. 1 í tvær vikur vegna sigurs síns á PGA Championship náði ekki niðurskurði og fór því aftur niður í 2. sætið.

Rory hefir samt aðeins 0,14 stiga forskot.  Báðir gætu fallið neðar á listanum eftir  Deutsche Bank Championship mótið sem fram fer í þessari viku. Jason Day, sem vann The Barclays, gæti orðið nr. 1 ef hann sigrar á TPC Boston og ef McIlroy og Spieth verða í 3. sæti eða verra. Day er nú í 3. sæti heimslistans.

Að öðru leyti hefir staða efstu 10 á heimslistanum lítið breyst.  Henrik Stenson fór úr 9. sætinu í 8. sætið og hafði sætaskipti við Rickie Fowler.

Thomas Pieters tók stærsta stökkið á heimslistanum. Hann var í 245. sætinu á heimslistanum en eftir sigur á Czech Masters fór hann upp um 104 sæti í 141. sætið.

Tiger er nú nr. 266 í heiminum og á milli Haydn Porteous og Kazuhiro Yamashita.

Hér er svo staðan á topp 10 heimslistans: 1. McIlroy, 2. Spieth, 3. Day, 4. Bubba Watson, 5. Justin Rose, 6. Jim Furyk, 7. Dustin Johnson, 8. Stenson, 9. Fowler, 10. Sergio Garcia.