Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 21. 2015 | 18:00

GSÍ: Yfir 500 í mótum GSÍ um helgina

Það verður nóg um að vera hjá afrekskylfingum landsins um helgina víðsvegar um landið og verða vel á fimmta hundrað keppendur á öllum aldri í harðri keppni sín á milli.

Nýherjamótið, lokamót Eimskipsmótaraðarinnar, hefst á laugardaginn á Urriðvelli hjá Golfklúbbnum Oddi. Færri komust að en vildu í þetta mót en keppendur eru rúmlega 80. Leiknir verða tveir hringir á laugardeginum og lokahringurinn verður síðan leikinn á sunnudag.
Efstu kylfingarnir á stigalista Eimskipsmótaröðinni taka allir þátt í mótinu, en Axel Bóasson GK er sem stendur efstur á stigalistanum með 5505 stig en í öðru sæti er Kristján Þór Einarsson GM með 4387 stig.
Í kvennaflokki leiðir Tinna Jóhannsdóttir GK stigalistann með 4965 stig en fast á hæla hennar kemur Íslandsmeistarinn Signý Arnórsdóttir GK með 4865 stig.

Fimmta mótið á Íslandsbankamótaröð unglinga fer fram á Hamarsvelli í Borgarnesi og hófst keppni í dag í flokki 17-18 ára. Rúmlega 110 kylfingar taka þátt og er hörð keppni um stigameistaratitlana. Að venju er keppt í þremur aldursflokkum hjá báðum kynjum.

Tæplega 50 kylfingar taka þátt á Áskorendamóti sem fram fer á Glanna í Borgarfirði á laugardaginn. Það er einnig keppt í þremur aldursflokkum hjá báðum kynjum. Áskorendamótaröðin er ætluð þeim kylfingum sem vilja öðlast keppnisreynslu áður en stigið er á stóra sviðið á Íslandsbankamótaröðinni.

Keppt er í sveitakeppnum eldri kylfinga á tveimur stöðum á landinu. 1. deild karla fer fram í Öndverðarnesi þar sem átta sveitir keppa um titilinn. Rúmlega 70 kylfingar taka þátt í þessari keppni. Golfklúbbur Reykjavíkur, Golfklúbburinn Keilir, Golfklúbbur Suðurnesja, Golfklúbbur Öndverðarnes, Golfklúbburinn Oddur, Nesklúbburinn, Golfklúbbur Akureyrar, Golfklúbbur Vestmannaeyja. Hægt er að fylgjast með gangi mála með því að SMELLA HÉR: 

Keppni í 2. og 3. deild karla fer fram á Kirkjubólsvelli í Sandgerði. Þar eru alls 12 sveitir, 8 í 2. deild og 4 í 3. deild. Alls eru um 100 keppendur í Sandgerði. Hægt er að fylgjast með gangi mála með því að SMELLA HÉR: