Ragnheiður Jónsdóttir | ágúst. 14. 2015 | 18:00

Birgir Leifur T-34 e. 2. dag í Finnlandi!

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, tekur nú þátt í móti Áskorendamótaraðar Evrópu, Gant Open í Finnlandi.

Hann lék á 2 yfir pari, 73 höggum á 2. keppnisdegi og er því samtals búinn að spila á 140 höggum (67 73).

Birgir Leifur komst í gegnum niðurskurð í dag.

Áskorendamótaröðin er næst sterkasta mótaröð atvinnukylfinga í Evrópu og er þetta sjöunda mótið sem Birgir Leifur tekur þátt í. Hann hefur náð fimmta og áttunda sæti á þessari leiktíð en hann er í 81. sæti styrkleikalistans.

Sjá má stöðuna á Gant Open e. 2. keppnisdag með því að SMELLA HÉR: 

Það gekk vel í gær með lengdarstjórnunina í innáhöggunum í gær og ég var í mörgum fuglafærum og púttaði vel. Í dag gekk mér illa að átta mig á vindinum og ég hitti ekki nógu margar flatir í innáhöggunum. Það er oft erfitt að koma sér í góða stöðu ef maður hittir ekki þessar flatir en þær eru frekar litlar og mikill kargi í kringum þær. Völlurinn er vel settur upp, verðlaunar fyrir góð högg og refsar fyrir þau slæmu. Ég þarf að gefa allt í þetta um helgina,“ sagði Birgir Leifur í viðtali við við golf.is

Það er að miklu að keppa þar sem stigahæstu kylfingarnir í lok keppnistímabilsins fá keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili. Þeir sem eru í sætum 1.-20. á stigalistanum í lok keppnistímabilsins fá keppnisrétt á sjálfri Evrópumótaröðinni, þeir sem eru í sætum 21.-45. fara beint inn í lokaúrtökumótið í haust fyrir Evrópumótaröðina, þeir sem eru 46.-90. sæti stigalistans fara beint inn á annað stig úrtökumótsins.
Sjötíu stigahæstu kylfingarnir í lok leiktíðar tryggja sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári og þeir sem eru í sætum 71.-120 eru nánast með fullan keppnisrétt. Birgir Leifur er í 81. sæti stigalistans þessa stundina og hann getur bætt stöðu sína á þeim lista með góðum árangri í Finnlandi. Þetta er reyndar besti árangur Birgis á stigalista Áskorendamótaraðarinnar en hann hefur leikið á Áskorendamótaröðinni frá árinu 1999.