Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 9. 2015 | 07:55

Gísli í 2. sæti í höggleikshlutanum – piltalandsliðið tapaði f. Finnum á 3. degi

Í gær lauk höggleikshluta á EM 18 ára og yngri, sem fer fram á Pickala golfvellinum í Finnlandi.

Gísli Sveinbergs, GK, spilaði best af öllum í piltalandsliði Íslands, varð í 2. sæti í höggleikshlutanum á glæsilegum skori upp á samtals 9 undir pari, 135 höggum (68 67).

Henning Darri Þórðarson, GK spilaði einnig mjög vel; var á samanlögðu skori upp á 5 yfir pari og T-56.

Hlynur Bergsson, GKG var á samtals 10 yfir pari og varð T-83;  Björn Óskar Guðjónsson GM lauk leik á samtals 12 yfir pari og varð T-91, Tumi Hrafn Kúld GA var á samtals 13 yfir pari og lauk keppni T-93  og Fannar Ingi Steingrímsson GHG, rak lestina á samtals 14 yfir pari og varð T-93.

Íslenska piltalandsliðið lauk leik í höggleikshlutanum í neðsta sæti T-15, ásamt Sviss á samtals 748 höggum og leikur því í B-riðli en 8 efstu þjóðirnar spila holukeppnishlutann í A-riðli og þær 8 neðstu í B-riðli.  Efstir eftir höggleikshlutann í liðakeppninni urðu Englendingar á samtals 709 höggum.

Í B-riðli með Íslendingum leika piltalandslið Finnlands, Frakklands, Wales, Belgíu, Tékklands, Spánar og Sviss.

Í holukeppnishlutanum í morgun tapaði íslenska landsliðið síðan fyrir heimamönnum Finnum og  einu Íslendingarnir, sem héldu jöfnu og unnu hálfan vinning fyrir Ísland voru Björn Óskar Guðjónsson GM og  Fannar Ingi Steingrímsson, GHG, í leik sínum gegn Finnunum Matias Honkala og Eetu Isometsa. 

Finnska piltalandsliðið vann það íslenska með 4,5 vinningi gegn 0,5.

Til þess að sjá lokastöðuna í höggleikshluta EM 18 ára og yngri SMELLIÐ HÉR: 

Til þess að sjá stöðuna í holukeppnishlutanum á EM 18 ára og yngri SMELLIÐ HÉR: