Ragnheiður Jónsdóttir | júlí. 6. 2015 | 11:30

Spieth gagnrýndur f. að taka þátt í John Deere Classic

Jordan Spieth ætlar að taka þátt í John Deere Classic mótinu, sem er eitt minnsta mótið á PGA túrnum.

Mótið fer fram í litla bænum Silvis, Illinois þar sem íbúar eru ekki fleiri en 7617 og verðlaunafé í mótinu er með því minnsta á PGA Tour.

Spieth hefir verið gagnrýndur fyrir ákvörðun sína að taka þátt, þar sem í vikunni á eftir hefst Opna breska risamótið og vilja margir meina að hann ætti fremur að einbeita sér að undirbúningi og reyna að auka líkurnar á að sigra í 3. risamóti ársins og reyna að láta sögulegan viðburð þ.e. að sigra í 3 risamótum á sama árinu verða að veruleika.

Finnst mörgum sem Spieth ætli sér of mikils en jafnvel fyrir 21 árs ungan mann er erfitt að keppa í PGA Tour móti og ætla síðan að vera upp á sitt besta vikuna á eftir í annarri heimsálfu (með tilheyrandi tímamismun) við allt aðrar keppnisaðstæður.

Spieth lætur allt slíkt sem vind um eyru sér þjóta.

John Deere Classic var fyrsta mótið sem Jordan Spieth sigraði á, á PGA Tour aðeins 19 ára og var hann fyrsti táningurinn í 80 ár að gera svo og hann heldur tryggð við mótið – hann ætlar að taka þátt jafnvel þó framkvæmdastjóri mótsins Clair Peterson segðist hafa fullan skilning á að hann drægi sig úr mótinu til að búa sig betur undir Opna breska.

Ef hann hefði samband og segði eins og sumir hafa haldið fram og segði að sér finndist of erfitt að keppa á Opna breska og taka þátt á John Deere þá lítum við svo á að samband okkar sé til langs tíma og myndum sætta okkur við það,“ sagði Peterson m.a., en hann vill allt til þess gera að Spieth vegni sem best.

Yfirleitt er ekki litið á það með velþóknun að stór nöfn í golfinu drægi sig úr mótum sem þeir eru búnir að staðfesta þátttöku í. Annað er upp á teningnum hér – enda mikið í húfi fyrir Spieth – hann á möguleika á að verða 2. kylfingurinn í golfsögunni til að vinna 3 risamót í röð á sama ári.

En Spieth er ekkert á því að draga sig úr neinum mótum – ætlar bara að keppa.

Allir aðrir sem taka Opna breska risamótinu af einhverri alvöru eru einhvers staðar að æfa sig á Bretlandseyjum við svipaðar aðstæður og á St. Andrews, þar sem Opna breska fer fram í ár – Ekki Spieth – hann lætur allar viðvaranir lönd og leið og heldur tryggð við það sem reyndist honum svo vel fyrir 2 árum – John Deere Classic.