Ragnheiður Jónsdóttir | júní. 24. 2015 | 07:00

Poulter gagnrýnir USGA

Ian Poulter hefir gagnrýnt USGA, þ..e. bandaríska golfsambandið vegna þess að þeir halda því fram að völlurinn þar sem Opna bandaríska fór fram hafi verið í góðu lagi.

Á Instagram gagnrýndi Poulter mjög ástand flatanna á Chambers Bay og birti m.a. meðfylgjandi mynd af einni flötinni á Chambers Bay.

1-a-poulter

Meðal þess sem hann sagði í texta var eftirfarandi: „Lítið á myndina. Þetta var yfirborðið sem við urðum að pútta á. Það er skammarlegt að bandaríska golfsambandið hefur ekki afsakað sig fyrir ástand flatanna. Þeir hafa einfaldlega sagt: „við erum ánægðir með ástand vallarins í þessari viku.“  […]  „Þetta var ekki slæmur golfvöllur í raun spilaðist hann vel og var leikhæfur.  Það sem var óleikhæft voru flatirnar, ef þetta hefði verið venjulegt PGA Tour mót myndu margir leikmannanna hafa sagt sig úr mótinu og farið heim, en leikmenn gera það ekki í risamóti. Þetta voru einfaldlega verstu, skammarlegustu flatirnar, sem ég hef séð á túrnum á öllum þeim árum sem ég hef spilað.“

Poulter lék lokahringinn á 77 höggum – kannski lélegt skor hans hafi valdið síðasta útspili hans á Instagram, en hann er frægur fyrir að tjá sig opinskátt um ýmislegt sem aðrir láta liggja milli hluta.

En  ef maður virðir myndina fyrir sér er ekki frá því að hann hafi nokkuð til síns máls!

Auk þess hafa ýmsir aðrir kylfingar látið í sér heyra og hafa gagnrýnt Chambers Bay m.a. Henrik Stenson og Billy Horschel.