Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR og ETSU. Mynd: ETSU
Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 30. 2015 | 19:00

Bandaríska háskólagolfið: Guðmundur Ágúst með ás á lokaúrslitamóti NCAA

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR,  gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á fyrsta keppnisdeginum á lokamóti NCAA háskóladeildarinnar í Bandaríkjunum í gær.

Mótið er eitt það allra sterkasta á NCAA og aðeins bestu kylfingarnir í bandaríska háskólagolfinu komast á mótið.

Guðmundur er aðeins annar Íslendingurinn í sögunni sem nær þessum áfanga en Úlfar Jónsson lék á þessu móti árið 1988 og endaði á meðal 20 efstu.

Guðmundur Ágúst lék fyrsta hringinn á 78 höggum eða +6 en hann fékk nokkrar „sprengjur“ á hringnum sem gerðu honum erfitt um vik.

Hann fór holu í höggi á 6. braut sem er rétt um 165 metrar að lengd og á þeim tíma var hann á þremur höggum undir pari.

Keppnin heldur áfram í dag en Guðmundur Ágúst, sem keppir fyrir East Tennessee State er í 91. sæti.