Ragnheiður Jónsdóttir | maí. 4. 2015 | 08:00

LPGA: Inbee Park sigraði í Texas

Fyrrum nr. 1 á heimslistanum Inbee Park frá S-Kóreu sigraði á Volunteers of America North Texas Shootout í gær.

Hún lék á samtals 15 undir pari, 269 höggum (69 66 69 65) og það var einkum glæsilegum lokahring hennar upp á 65 högg að þakka að hún sigraði.

Í 2. sæti urðu landa og nafna Inbee; Hee Young Park og hin bandaríska Cristie Kerr, en þær voru heilum 3 höggum á eftir Inbee, þ.e. á samtals 12 undir pari, 272 höggum; Kerr (66 71 69 66). og HY Park (69 67 70 66).

Fjórða sætinu deildu hin sænska María McBride og Lexi Thompson á samtals 11 undir pari, hvor.

Nr. 1 á heimslistanum, Lydia Ko hafnaði í 41. sæti á sléttu pari, sem teljast verður vel af sér vikið eftir hrakfarir fyrsta keppnisdagsins þar sem hún sló bolta sínum upp í tré og síðan út í vatn og spilaði sig í raun út úr mótinu strax þá. Hins vegar fá fórnarlömb jarðskjálftans í Nepal þ.a.l. mun minna fé,  en ef allt hefði farið eins og venjulega, aðeins $6,241.00, en Lydía var búin að heita því sem hún ynni sér inn í mótinu til þeirra.

Sjá má lokastöðuna á Volunteers of America North Texas Shootout með því að SMELLA HÉR: 

Sjá má hápunkta lokahringsins á  Volunteers of America North Texas Shootout með því að SMELLA HÉR: