Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 30. 2015 | 07:00

Anthony Kim á ný á sjónarsviðinu

Anthony Kim var svo sannarlega um tíma einn af bestu ungu kylfingum Bandaríkjanna. Hann sigraði þrívegis á 2 árum og var Ryder Cup stjarna í liði Bandaríkjanna 2008.

En hann hvarf af sjónarsviðinu, ekki bara úr keppnisgolfinu heldur hefir ekkert til hans spurst í lengri tíma.

Í fyrstu vegna meiðsla en svo þegar ekkert krælaði á honum fóru að berast sögusagnir um aðrar ástæður fjarveru hans úr golfinu; t.a.m. að hann væri bara orðinn leiður á golfi eins og einn vina hans sagði eða hann hefði hætt í golfi til þess að kassera inn stóra summu af tryggingafé.

Hver svo sem ástæðan er hefir Kim ekkert spilað á PGA Tour frá árinu 2012.

En nú sást aftur til hans!

Það var þegar atvinnupókerspilarinn  Jean-Robert Bellande setti á Instagram meðfylgjandi mynd af AK saman með félaga sínum  Rick Salomon eftir að þeir hittust á  the Omnia Night Club í Caesars í Las Vegas.

Ekki fylgdi sögunni hvort AK hefði verið í Las Vegas til að sjá viðureign Mayweather-Pacquiao.