Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 28. 2015 | 15:00

Nýju stúlkurnar á LPGA 2015: Sakura Yokomine (31/45)

Nú hafa allar stúlkurnar verið kynntar sem urðu í 18.-45. sætinu á lokaúrtökumóti LPGA, sem fram fór 3.-7. desember 2014.

Þrjár (þ.e. þær í 18.-20. sæti) með fullan spilarétt eftir 7 manna bráðabana og hinar sem urðu í 21.-45. sæti með takmarkaðan spilarétt.

Lokaúrtökumótið fór fram á Hill og Jones golfvöllunum á  LPGA International, á Daytona Beach, í Flórída.

Sjö kylfingar deildu 11. -17. sætinu, en þær léku allar á samtals 5 undir pari, hver.

Þetta eru þær: frænka Tiger: Cheyenne Woods,  Therese Koelbaek frá Danmörku, franski kylfingurinn  Perrine Delacour,  SooBin Kim frá Suður-Kóreu,  Sakura Yokomine frá Japan,  Sophia Popov frá Þýskalandi og  Ju Young Park, frá Suður-Kóreu.

Ju Young Park og Sophia Popov hafa þegar verið kynntar, en sú sem kynnt verður í dag er Sakura Yokomine.

Yokomine lék á samtals 5 undir pari, 355 höggum (73 71 66 70 75)

Sakura Yokomine (横峯さくら Yokomine Sakura) fæddist 13. desember 1985 í Kanoya, Kagoshima í Japan og er því 29 ára.

Hún er þungavigtarkvenkylfingur frá Japan, hefir mestmegnis spilað á japanska LPGA þar sem hún hefir sigrað 23 sinnum.

Hún komst á bandaríska LPGA s.l. desember í fyrstu tilraun sinni og hefir slegið í gegn – er yfirleitt meðal efstu kylfinga í mótum, sem hún hefir spilað í, en hefir enn ekki tekist að sigra í Bandaríkjunum.

Hún er með marga styrktaraðila en þeir helstu eru:  Epson, Srixon, Asahi Soft Drinks, Le Coq Sportif (franskur golfvöruframleiðandi sem sér Yokomine m.a. fyrir öllum golffatnaði) ANA og Sato.