Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 11. 2015 | 04:45

The Masters 2015: Staðan í hálfleik

Jordan Spieth er með afgerandi forystu í hálfleik á The Masters risamótinu 2015 er á samtals 14 undir pari, 130 höggum (64 66), sem er nýtt hálfleikjamet á Masters, eins og fyrr hefir komið fram á Golf1, en fyrra 36 holu met átti Raymond Floyd, upp á 131 högg, sem hann náði 1976.

Þannig að tæpra 40 ára met féll í gær!!!

Charley Hoffman er í 2. sæti 5 höggum á eftir Spieth, á samtals 9 undir pari, 135 höggum (67 68) sem reyndar er ekki mikill munur í golfinu í dag – Reyndar hafa mót aldrei  (a.m.k. sjaldnast) unnist eftir 2 hringi og svo er svo sannarlega um stöðuna sem Spieth er í; hún er svo EKKI öfundsverð fyrir 21 árs strák að vera í – allir að elta hann nú um helgina og Hoffman auðvitað fyrst og fremst þar sem hann er næstur honum.

Þriðja sætinu deila þeir DJ þ.e. Dustin Johnson og Englendingarnir Justin Rose og Paul Casey, allir á samtals 7 undir pari eða 7 höggum á eftir forystumanninum Spieth.

Í 6. sæti er síðan Phil Mickelson, sem er til alls líklegur nú um helgina á samtals 6 undir pari og síðan í 7. sæti er gamla brýnið Ernie Els á samtals 5 undir pari.

Staða nokkurra valinna kylfinga er eftirfarandi Adam Scott er á samtals 3 undir pari og er T-12; Tiger Woods er á samtals 2 undir pari og er T-19 – Reyndar eru alls 8 kylfingar T-19 en þ.á.m. eru nr. 1 á heimslistanum Rory McIlroy og sá sem á titil að verja nr. 3 á heimslistanum Bubba Watson.

Það voru efstu 50 og þeir sem jafnir voru í 50. sæti, eða alls 55 sem komust í gegnum niðurskurð:

Nr. 2 á heimslistanum, kylfubrjóturinn Henrik Stenson rétt skreið í gegnum niðurskurð; varð T-50, líkt og Íslandsvinurinn Indverjinn Anirban Lahiri, Cameron Tringale, Steve Stricker og Lee Westwood, allir á samtals 2 yfir pari, sem var það sem þurfti til að komast gegnum niðurskurð.

Þetta þýðir að 42 náðu ekki niðurskurði af 97 þátttakendum. Meðal þeirra sem ekki komust í gegnum niðurskurð eru Bernhard Langer, Luke Donald. Stephen Gallacher, Brandt Snedeker, Victor Dubuisson, Martin Kaymer og nr. 8 á heimslistanum Jim Furyk.

Best af áhugamönnunum stóð sig Kanadamaðurinn Corey Conners, eins og Golf 1 var búið að spá – sjá með því að SMELLA HÉR

Connors hlýtur silfurbikar áhugamanna á Masters (The Silver Cup) og heldur þar með uppi minningu Bobby Jones, einum stofnenda Augusta og The Masters, en hann var áhugamaður alla tíð.  – Enginn af áhugamönnunum 7, sem þátt tóku á Masters 2015 náði í gegnum niðurskurð.  Skor Connors var 149 högg (80 69). (Connors stóð sig best á 5 yfir pari; næstur var Byron Meth á 6 yfir pari; og svo hver á fætur öðrum: Antonio Murdaca á 7 yfir pari; Matias Dominguez á 8 yfir pari; Scott Harvey og Bradley Neil á 13 yfir pari og lestina af áhugamönnunum rak Gunn Yang á 15 yfir pari).

Sjá má stöðuna á Masters með því að SMELLA HÉR: