Ragnheiður Jónsdóttir | apríl. 9. 2015 | 07:00

The Masters 2015: Daly selur varning sinn á Hooters og kennir syni sínum heima

Bandaríski kylfingurinn John Daly hefir ekki fengið boð um að taka þátt í The Masters risamótinu  í mörg ár og besti árangur hans þar er T-3 árangur árið 1993.

Nú er hann eins langt frá the Masters og hugsast getur golflega séð, þó líkamlega sé hann aðeins 1 km frá hliðum Augusta en þar er Daly  á bílastæði Hooters veitingastaðarins, þar sem hann selur áritaða minjagripi s.s. der, flögg og sjálfsævisögu sína.

Hann er þar ásamt kærustu sinni Önnu Cladakis, sem hann trúlofaðist s.l. desember en brúðkaup er framundan og verður Anna 5. eiginkona Daly, en þau hafa verið saman í 7 ár, frá árinu 2008.  Kaupendur Daly-minjagripanna fá jafnvel ljósmynd af sér með Daly.

Daly er í fríi frá golfi, því fyrsta sem hann hefir tekið að eiginn dáðum í 27 ár, en hann er að hvíla meiddan líkamann áður en hann tekur þátt á öldungamótaröðinni, en á afmæli sínu 28. apríl n.k. verður hann orðinn nógu gamall – 50 ára – til þess að fá að taka þátt á Champions Tour.

Venjulega er það þannig að ég er bara í fríi þegar búið er að reka mig úr móti en nú er ég bara þreyttur“ sagði Daly um 3 mánaða frí sitt „Þetta er skrítið en mig klæjar ekkert í puttana að fara út þarna aftur.“

Ég hef enn ástríðuna, ég var að spila vel en mig langar bara ekkert til að spila,“ sagði Daly.

Öxlin á mér er enn til vandræða eftir þetta vitlausa ljósmyndavélarslys þarna ´07,“ sagði hann. „Svo hef ég líka gengist undir uppskurð á hné, báðum fótum og olnboga.“

Ég ætla að gefa sjálfum mér tíma og koma mér í form fyrir öldungamótaröðina á næsta ári. Það verður gaman að sjá alla vinina aftur.“

Einn þessara vina Daly er Greg Norman, en honum hrósar Daly fyrir að „hringja alltaf í (sig) og segja mér að hanga inni þarna.“

Burtséð frá allri sölumennsku þá kennir Daly syni sínum „Little John“ heima, með hjálp Cladakis og er kennslan 5 klukkustundir á hverjum degi.

„Ég er góður í stærðfræði og sögu, en er ömurlegur í ensku,“ sagði Daly og bætti við að þar tæki Cladakis við.