Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 24. 2015 | 14:00

GR: Marolína púttmeistari GR-kvenna 2015

Skemmtikvöld GR kvenna tókst með miklum ágætum, en það fór fram helgina fyrir viku síðan.  Stemningin var í þá veru að allar GR-konur ætluðu að skemmta sér og njóta kvöldsins í góðra vinkvennahópi. Maturinn lék við bragðlaukana og hefur sjaldan bragðast betur og þjónusta Sigrúnar og hennar fólks í veitingaskálanum í Grafarholti var til fyrirmyndar. Anna Björk var ræðumaður kvöldsins og leiddi GR-konur í allan sannleikann um að það er hægt að vera mamma út á velli; móðurlegt og skemmtilegt innlegg frá Önnu Björk. Dúettinn September bræddi það sem eftir var af hjörtum GR-kvenna, með ljúfum tónum og það skemmdi svo ekki fyrir að GR konur fengu að dást að því nýjasta í golftískunni frá Cross og Ecco og nutu góðra tilboða á vönduðum golffatnaði. Sjá mátti rjúka úr einhverjum kreditkortunum…..

Metþátttaka var í púttinu en 175 konur mættu í Korpuna og munduðu pútterinn frá síðari hluta janúar fram í byrjun mars. Jafnan var mikil stemning og spenna en kylfingar skiptust á að verma efstu sætin allt fram á síðasta dag. Að vanda var það Marólína Erlendsdóttir sem kom, sá og sigraði en hún kann ekki annað en að vinna  og ber það mjög vel enda hógvær og þægileg á velli. Fjórir bestu hringir hennar töldu 109 högg. Í öðru sæti varð Nanna Björg Lúðvíksdóttir á 112 höggum og í því þriðja var Helga Hilmarsdóttir á 113 höggum.

Marólína Erlendsdóttir er því Púttmeistari GR kvenna árið 2015 og óskar Golf 1 henni innilega til hamingju með glæstan árangur í púttmótinu, enn eitt árið.

Meðfylgjandi er lokastaðan eftir 8 púttkvöld – Sjá með því að SMELLA HÉR: 

Heimild: grgolf.is