Ragnheiður Jónsdóttir | mars. 9. 2015 | 10:00

Nýju stúlkurnar á LET 2015: Sophia Popov (32/34)

Þann 17.-21. desember 2014 fór fram lokaúrtökumót fyrir Evrópumótaröð kvenna í Samanah Al Maaden golfklúbbnum í Marokkó.

Nánar tiltekið 2015 Lalla Aicha Tour School Final Qualifying eins og mótið heitir á ensku.

Meðal þátttakenda á lokaúrtökumótinu í ár voru tveir íslenskir kvenkylfingar Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, en þær komust því miður ekki í hóp þeirra sem hlutu keppnisrétt á LET 2015.

Golf 1 hefir, eins og undanfarin ár, kynnt stúlkurnar sem hlutu keppnisrétt á Evrópumótaröð kvenna (ens. Ladies European Tour skammst. LET) í gegnum lokaúrtökumótið, en í þetta sinn voru þær 34. Nú er bara eftir að kynna þær sem lönduðu þremur efstu sætunum en allar stúlkur sem urðu í 4.-34. sæti hafa nú verið kynntar.

Í dag verður kynnt sú sem varð ein í 3. sæti,  Sophia Popov.

Hún lék á samtals 14 undir pari, skorinu 346 höggum (71 71 66 72 66).

Sophia Popov fæddist í Framingham, Massachusetts, 2. október 1992 og er því 22 ára.  Í dag býr Popov í Naples, Flórída.

Þrátt fyrir fæðingarstað sinn er Popov þýskur ríkisborgari.

Hún gerðist atvinnumaður í golfi 14. júlí á s.l. ári þ.e. 2014 og hefir átt sæti í þýska golflandsliðinu frá árinu 2007.  Popov átti glæstan feril sem áhugamaður en hún vann m.a. í 10 sterkum áhugamannamótum, sem áhugamaður.

Popov segir uppáhaldsgolfvöll sinn vera Cypress Point í Bandaríkjunum.

Sterkustu þættirnir í leik hennar eru drævin og löngu járnin og nokkuð sérstakt við Popov er að hún notar Kramski pútter.

Þjálfari Popov er Stephan Morales.

Popov er með marga sterka styrktaraðila m.a. Allianz, þýska golfsambandið og Cobra Puma golf.