Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 5. 2015 | 09:00

GR: Formannspistill

Á heimasíðu Golfklúbbs Reykjavíkur skrifar formaður GR, Björn Víglundsson, eftirfarandi pistil:

„Ekki veit ég hvort félagar GR séu sammála mér en formaður hefur tekið greinlega eftir því að sól hækkar nú stöðugt á lofti. Það veit bara á eitt, það styttist í golfvertíðina. En þó snjór sé yfir öllu og grasið lítið grænt er vetrarstarf GR á fullu.

Í vetur var bryddað upp á því að bjóða upp á golfkennslu fyrir félagsmenn GR í hádeginu. Hefur þetta mælst vel fyrir og seldust allir tímar upp á mettíma. Við munum halda áfram með svona nýjungar því það virðist vera næg eftirspurn. 

Þau gleðitíðindi bárust okkur nú í janúar að Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hafi verið valin kvenkylfingur ársins. Við óskum henni til hamingju með nafnbótina og minnum okkur á hvað það er gott að eiga svona fyrirmynd í klúbbnum eins og Ólafía Þórunn er.

Góð mæting hefur verið á púttkvöldin og hefur Korpan iðað af lífi og púttað er af mikill elju um allt hús. Karlamótaröðin, Ecco- Púttmótaröðin, hófst 15. janúar s.l. Henni mun svo ljúka föstudagskvöldið 20. mars. Kvenmótaröðin hefur líka farið mjög vel af stað og lýkur henni einnig um miðjan mars. Þá hafa yngstu kylfingarnir sína eigin púttmótaröð og eru félagar hvattir til að mæta með börn eða barnabörn sín á þá viðburði.

Vallastarfsmenn okkar hafa verið iðnir við að dytta að völlunum þó snjór sé yfir öllu. Ís hefur verið bræddur af flötum með nýrri aðferð sem gefist hefur vel. Þá hafa tré í Grafarholti verið felld, en þar er unnið eftir niðurstöðum Gróðurfarsnefndar GR sem hefur markað skýra stefnu um gróðurfar í Grafarholtinu.

Nú á næstu dögum verður íslensk þýðing af skýrslu Tom McKenzie um framtíð Grafarholtsvallar birt á heimasíðunni og hvetjum við félaga til að kynna sér skýrsluna vel. Á vormánuðum verður efnt til kynningarfundar um málið og þá er mikilvægt að sem flestir séu búnir að kynna sér málið vel.

Þann 21. febrúar verður svo efnt til Þorrablóts GR á Korpunni. Þetta verður nánar auglýst á næstunni en við hvetjum alla til að taka daginn frá og blóta Þorrann með okkur.

Að lokum er rétt að benda á tilboð á vetrarkortum í Básum en eins og allir vita þá lækkar forgjöfin ekki á vellinum heldur í Básum á veturna, það er því um að gera að byrja að slá sig í gang og vera klár um leið og vellirnir.

Með golfkveðju,
Björn Víglundsson“