Ragnheiður Jónsdóttir | febrúar. 1. 2015 | 10:30

Rory styður vin sinn og Nike félaga Tiger – eftir versta hring á ferli þess síðarnefnda

Nr. 1 á heimslistanum Rory McIlroy hefir lýst yfir stuðningi við vin sinn og Nike félaga Tiger Woods opinberlega, eftir að sá síðarnefndi átti versta hring ferils síns 11 yfir pari, 82 högg á 2. hring Phoenix Open s.l. föstudag, 30. janúar 2015.

Hinn 39 ára 14 faldi risamótssigurvegari var að spila fyrsta PGA Tour mót sitt á keppnistímabilinu á TPC Scottsdale þegar hann fékk 6 skolla, tvo skramba, snjókerlingu +3 og tvo fugla.

Talið er að Tiger muni falla utan topp-50 á heimslistanum og ef hann tekur sig ekki á og fer að spila betur mun þátttökuréttur hans á Cadillac heimsmótinu verða í hættu í fyrsta skipti á ferli Tiger.

Rory, sem er sem stendur í forystu fyrir lokahring Omega Dubai Desert Classic í Emirates golfklúbbnum – er á 20 undir pari, og á 4 högg á næsta mann sagði blaðamönnum að vera ekkert að lesa of mikið í sjokkhring Tiger.

„Í sannleika sagt þá held ég bara að hann þurfi að spila svolítið keppnisgolf.  Ég spilaði við hann í nóvember á Seminole í West Palm Beach í Flórída og hann spilaði algerlega brillíant.“

„Hann hefir líklega ekki spilað í aðstæðum eins og þessum [á Phoenix Open] í langan tíma og það er erfitt og þrælerfitt þegar maður er að byrja keppnistímabilið; hann fær svo mikla athygli og er undir smásjánni hjá öllum.“
„Ég myndi ekkert vera að lesa of mikið í þetta, allir vita að hann er að gera sitt besta og æfir stíft þegar hann er heima; ég held bara að hann þurfi að verja meiri tíma á golfvellinum“