Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 30. 2015 | 09:00

PGA: Tiger byrjar 2015 ekkert vel í Phoenix

Tiger Woods sneri aftur á Waste Management Phoenix Open eftir um 14 ára hlé frá þátttöku í mótinu.

Hann átti slælegan hring upp á 2 yfir pari, 73 högg, sem alls ekki dugar á móti frábærum ungum og upprennandi kylfingum og þeim sem  ofarlega eru á heimslistanum.

Tiger er í 104. sæti eftir 1. dag af 132 keppendum og verður að eiga frábæran hring í dag, bara til þess að komast í gegnum niðurskurð.

Á 1. hring fékk Tiger glæsiörn (á par-5 13. holuna), 2 fugla og 4 skolla og því miður líka skramba (á par-3 4. holuna).  Á hinni frægu 16. holu, þar sem Tiger átti glæsiás árið 1997 var Tiger með par að þessu sinni.

Menn voru búnir að bíða spenntir eftir hvaða framförum Tiger hafði tekið eftir jólafrí, en þetta er fyrsta mótið sem hann tekur þátt í á nýju ári.

Hins vegar ber að athuga að þetta er aðeins 2. mótið sem Tiger spilar í eftir fremur langt frí til þess að jafna sig eftir bakuppskurð á síðasta ári, þannig að kannski þarf hann bara nokkur mót til þess að koma sér í gírinn aftur.

Til þess að sjá stöðuna eftir 1. dag á Waste Management Phoenix Open SMELLIÐ HÉR: