Ragnheiður Jónsdóttir | janúar. 27. 2015 | 13:00

Allenby var á strippklúbbi áður en á hann var ráðist

Ástralski kylfingurinn Robert Allenby greiddi $3,400 (u.þ.b. 440.000 ísl. kr.) reikning á strippklúbbi í Honolulu á Hawaii kvöldið sem hann segir að ráðist hafi verið á sig, hann byrlaður ólyfjan, hann barinn meðvitundarlaus, hann rændur þ.e. farið með hann á stað 10 km utan við Honolulu og síðan öllu steini léttara stolið af honum m.a. veski hans, kreditkortum, peningum og farsíma.

Rannsókn stendur enn yfir á því hvað gerðist um kvöldið 16. janúar s.l. eftir að Allenby hafði ekki tekist að komast gegnum niðurskurð á PGA mótinu, Sony Open.

Golf Channel sjónvarpsstöðin hefir eins gert sína eigin rannsókn og reynt að rekja aftur spor Allenby eftir að hann sagðist hafa borðað með vinum á the Amuse Wine Bar í miðbæ Honolulu.

Komið hefir upp úr dúrnum að eftir matinn fór Allenby á strippklúbb sem heitir Club Femme Nu (lausleg ísl. þýðing fyrir þá sem skilja ekki frönsku: klúbbur hinna nöktu kvenna), en staðurinn er staðsettur milli tattústofu og kóreansks veitingastaðar í „rauða hverfi“ Honolulu.  (Allenby var áður búinn að staðhæfa í viðtali sem tekið var við hann að hann heimsækti aldrei vafasama staði – hmmm, enn ein glompan í frásögn hans!!!) – Sjá viðtalið við Allenby eftir árásina með því að  SMELLA HÉR: 

Club Femme Nu í Honolulu á Hawaii

Club Femme Nu í Honolulu á Hawaii

Allenby var þar til miðnættis með „hóp af vinum“ og greiddi 440.000 fyrir „skemmtun“ á barnum.

Allenby var með áverka í framan sem hann sagði að hefði stafað af því að einhver eða eitthvað hefði verið lamið í andlit sér og hann hefði síðan verið rændur.

Margt heimilislausra hefir komið fram í fjölmiðlum og sagt sína sögu af hvað gerðist og eitt virðist ljóst af þeim vitnisburðum að enginn staðfestir frásögn Allenby um að honum hafi verið troðið í bíl og keyrt með hann 10 km utan við Honolulu og honum hent út þar.

Heimilislausa fólkið segist hafa komið að Allenby liggjandi á móti vínbarnum sem hann var á fyrr um kvöldið.  Einn heimilislausi maðurinn Toa Kaili, segir að Allenby hafi fallið við á hraungrýti í jörðinni og fengið áverkana þannig.  Hann segir að Allenby hafi misst meðvitund eftir fallið og Allenby hafi verið ofurölvi.

Það hafi tekið u.þ.b. 10 mínútur að vekja Allenby og síðan aðrar 8 að fá hann bara til að standa.  Kaili sagðist hafa orðið reiður þegar Allenby ásakaði hann og félaga hans um að hafa rænt hann.

Kaili sagði m.a.: „Hann sagði alltaf: þið vitið hver ég er – ég er milljónamæringur“

Annar heimilislaus maður Chris Khamis, sagði að hann hefði ekki séð neinn slá Allenby niður og staðfesti að Allenby hefði endurtekið í sífellu að hann væri milljónamæringur og hefði veifað um sig með platínu kreditkortunum sínum.  „Hann missti meðvitund og féll á stein.  Enginn henti honum út úr bíl.“

Khamis hélt því einnig fram að Allenby hefði verið á strippklúbb til þess að ná sér í smá aktion, eins og Allenby komst sjálfur að orði.

Í fyrstu fréttum sagðist Allenby hins vegar hafa verið á vínbar, hann hafi orðið viðskila við vini sína; sér hafi verið byrlað ólyfjan eða hann barinn meðvitundarlaus og síðan hent út úr skotti á bíl í skrúðgarð 10 km frá miðbæ Honolulu.

Heimilislaus kona, Charade Keane, hafi síðan fundið sig.  Keane segist hafa fundið Allenby blóðugan og ruglaðan ekki langt frá vínbarnum. Í öðru viðtali sagði Allenby konuna „sem bjargaði lífi hans“ og hann verðlaunaði með $ 1.000,- vera að ljúga.

Rannsókn á máli Allenby stendur samt enn yfir og er rannsakað sem þjófnaðarmál ásamt óheimilli notkun á kreditkortum.

Fréttamenn bíða nú í ofvæni eftir að spyrja Allenby spurninga vegna misræmis á frásögn hans og nýrra atriða sem sífellt koma fram í ljósið á þessu skrítna málið.  Tækifæri til að spyrja Allenby „spjörunum úr“ gefst á morgun í Phoenix, Arizona, en næsta mót PGA mótaraðarinnar fer einmitt fram þar.